Eru vinstriflokkar vinstrafólki verstir?

Það skortir hvorki orðaforðann né yfirlýsingarnar í Ritstjóraþætti vikunnar þar sem Gunnar Smári Egilsson og Jón Baldvin Hannibalsson leiða saman hesta sína og skoða jafnt pólitíkina heima og þróun hennar erlendis, en þáttinn má nú sjá hér á vef stöðvarinnar.

Stóra spurning þáttarins er þessi: Hafa vinstriflokkar verið vinstrafólki verstir í gegnum síðustu áratugina - og hefur ósamstaða þeirra og sundrung verið mesta lán Sjálfstæðisflokksins á sama tíma, en hann hefur öðrum stjórnmálaöflum fremur ráðið lögum og lofum á Íslandi á samfelldum lýðveldistímanum.

Félagshyggjuöflin í samfélaginu hafa iðulega státað sig af manneskjulegustu stefnumálunum, sem jafnvel ítrekaðar kannanir sýna að yfirgnæfandi meirihluti landsmanna styður, svo sem í auðlindamálum og heilbrigðismálum, en þeim hefur samt aldrei tekist að hrinda þeim í framkvæmd. Hvað veldur því? Eru flokksforingjarnarir á vinstri vængnum úr tengslum við grasrótina í samfélaginu, eða hafa þeir einfaldlega meira gaman af því að fimbulfamba en framkvæma.

Við þessu eiga bæði Gunnar Smári og Jón Baldvin skýr svör, en í þættinum takast þeir nokkuð hraustlega á um það hvort sósíaldemókratar eða sósíalistar eru hér best fallnir til að breyta samfélaginu, almenningi til heilla - og hvort fjölga þurfi flokkum á vinstri vængnum eða fækka þeim, ellegar binda þá saman í einhvers konar kosningabandalag.

Það er einnig horft út í heim í þættinum og spurt að því hvort alþjóðahyggja sé að víkja fyrir einangrunarhyggju á tímum vaxandi lýðskrums og einnar lausnar stórnmála, en Gunnar Smári og Jón Baldvin eru sammála um það að líðandi tímar minni orðið óþægilega mikið á atburðarásina á millistríðsárunum á síðustu öld.

Ritstjórarnir eru frumsýndir öll þriðjudagskvöld klukkan 21:00.