Erna gísladóttir hlýtur fka-verðlaunin

Félag kvenna í atvinnulífinu, FKA, heiðraði í dag Ernu Gísladóttur, Hildi Petersen og Söndru Mjöll Jónsdóttur Buch fyrir eftirtektarverð störf þeirra í atvinnulífinu á árlegri hátíð sinni, sem haldin var í Gamla bíói.

Erna Gísladóttir, sem er forstjóri bílaumboðsins BL ehf., hlaut FKA viðurkenninguna 2018. Hildur Petersen,  framkvæmdastjóri Vistvænnar framtíðar, fékk Þakkarviðurkenningu FKA og Sandra Mjöll Jónsdóttir Buch, framkvæmdastjóri Platome Líftækni, Hvatningarviðurkenningu FKA 2018. Nánari upplýsingar um viðurkenningarhafa má sjá á næstu síðu.

Um fimm hundruð manns voru við afhendinguna, þar á meðal fjöldi kvenna og karla úr framlínu íslensks viðskipta- og atvinnulífs. Þetta er í nítjánda sinn sem hátíðin er haldin en í ávarpi Rakelar Sveinsdóttur, formanni félagsins, kom fram að sjaldan hefði verið jafn áríðandi  og nú, að draga fram fyrirmyndir í atvinnulífinu. Ekki aðeins væri #metoo byltingin að kalla á miklar breytingar, heldur lifði hið ósýnilega glerþak enn góðu lífi sem ekki einu sinni lög Alþingis væru að ráða við.

Og Rakel bætti við: \"Samt er það svo að ekki einu sinni kynjakvótalögin sem tóku gildi haustið 2013 hafa enn náð lögbundnu takmarki sínu. Ef lög sett af Alþingi virka ekki einu sinni, hvað virkar þá?”