Er viðskiptaráð orðið kratabæli?

Viðskiptaráð er líklega hægri sinnaðasta stofnun landsins – ef frá er talið Viðskiptablaðið.

Í málflutningi þess hefur verið lögð áhersla á skattalækkanir, einkavæðingu og strangt aðhald í ríkisrekstri, meðal annars og ekki síst til þess að greiða niður skuldir ríkissjóðs.

En nú ber nýrra við í máli hagfræðings Viðskiptaráðs, Kristrúnar Frostadóttur. Henni þykir ekki forgangsmál að greiða niður skuldir ríkissjóðs enda hafi það gengið ágætlega, heldur eigi ekki síður að horfa til þess að ráðast í nauðsynlegar fjárfestingar.

Með öðrum orðum að auknar fjárfestingar ríkisins gætu borgað sig sig mun frekar en að lækka vaxtabyrði ríkissjóðs.

Þetta kemur fram í áhugaverðum þætti í sjónvarpi Íslandsbanka

https://www.islandsbanki.is/um-islandsbanka/sjonvarp/nanar/?ItemID=6d4a2c9e-b4b7-11e7-8151-005056b00087).

Grípum niður í ummæli Kristrúnar í þættinumxx

„Auðvitað viljum við halda áfram á sömu braut, en við erum komin í allt annað jafnvægi en við vorum í. [...] Ég held að við séum komin að þeim tímapunkti þar sem við þurfum að ræða aðeins um hversu mikið við förum í að greiða niður skuldir núna á móti því í hverju við fjárfestum. [...]

Við erum allavega komin á þann stað þar sem við þurfum að hugsa um skiptin á milli arðbærni komandi fjárfestinga og kostnaðarins af vaxtagreiðslum, vegna þess að það er mjög dýrt að ráðast í áframhaldandi skuldaniðurgreiðslu ef það er á kostnað vannýttra fjárfestingartækifæra.“

Ef Hringbraut vissi ekki betur gæti hún haldið að ríkisfjárfestingakratar hefðu gert valdarán hjá Viðskiptaráði.