Er nú Ragnar Þór að fara á taugum?

Er nú Ragnar Þór að fara á taugum?

Þegar litlar sálir þurfa á sjálfstyrkingu að halda grípa þær jafnan til óyndisúrræða eins og að finna óvin til að ráðast á. 
Nú virðist ljóst að hjá Ragnari Þór formanni VR gengur ekkert í samningaviðræðum við Samtök atvinnulífsins. Eftir margra vikna og mánaða glannalegar yfirlýsingar um kjarabætur til handa hinum lægst launuðu og væntanleg átök og skæruhernað á vinnumarkaðnum er þessi formaður – sem vel að merkja var kosinn með atkvæðum 10% félagsmanna – augljóslega farinn að örvænta. Enginn árangur er í sjónmáli! Gífuryrðin hafa engu skilað! 

Það eykur enn á örvæntingu hans að innan skamms þarf aftur að kjósa formann félagsins og hver veit nema komi mótframboð!? Hvað verður þá um formann sem alls engu hefur skilað félagsmönnum þann tíma sem hann hefur gegnt því embætti? Nema, jú, hann hefur beint félaginu í átt til láglaunabaráttu og barist gegn hækkun launa sem honum finnst vera of há!

Þegar í óefni var komið sagði séra Sigvaldi „Ætli sé ekki best að fara að biðja Guð almáttugan að hjálpa sér?“ Hvað gerir Ragnar Þór? Hann sér að í óefni er komið, enginn árangur sjáanlegur! Þá þarf að grafa upp gamlan „óvin“ og treysta á grunnhyggni fjölmiðlamanna: Hann ræðst auðvitað á lífeyrissjóði fyrir að fjárfesta í skuldabréfum fyrirtækis sem er að reisa hótel í miðbæ Reykjavíkur! 

Af sinni alkunnu sérfræðiþekkingu um efnahagsmál og fjárfestingar hefur hann nú fellt þann dóm að þetta sé gríðarlega áhættusöm fjárfesting! Skyldi þetta upphlaup duga til að slá ryki í augu fólks og fjölmiðla og tryggja honum endurkjör í formannsstól VR?

Nýjast