Ennþá ekið óvarlega þrátt fyrir gangbrautarvörslu

Ennþá ekið óvarlega þrátt fyrir gangbrautarvörslu

Kjarninn
Kjarninn

Ekið var á barn á gangbraut yfir Hringbraut við Meistaravelli á miðvikudagsmorgun. Viðbrögðin létu ekki á sér standa og strax daginn eftir boðaði Reykjavíkurborg að gangbrautarvarsla yrði sett upp við gangbrautina, auk þess sem foreldrar í Vesturbænum létu í sér heyra á samfélagsmiðlum. Í dag og í gær hafa þó borist fregnir af því að enn séu ökuníðingar að keyra yfir umrædda gangbraut á rauðu ljósi þegar börn eru á leið til skóla.

Í gær greindi Vísir.is frá því að ökumaður hafi þann morgun brunað yfir á rauðu ljósi þegar barn beið þess að komast yfir gangbrautina þegar hann hélt til Vesturbæjarskóla. Fréttamaður Vísis náði mynd af atvikinu. Eyjan.DV.is greinir frá því að Halldóra Rut Baldursdóttir, móðir barnsins á myndinni hafi í kjölfar fréttar Vísis skrifað færslu á Facebook, þar sem hún biðlar til Dags B. Eggertssonar borgarstjóra og Sigríðar Bjarkar Guðjónsdóttur lögreglustjóra á höfuðborgarsvæðinu um að lækka hámarkshraðann á Hringbraut.

Í viðtali við Fréttablaðið.is í dag segist Jóhannes Tryggvason, sjálfboðaliði í gangbrautarvörslu við gangbrautina, hafa í forundran fylgst með bíl aka yfir gangbrautina á rauðu ljósi í morgun. Hann hafi tekið niður númerið á bílnum og tilkynnt til lögreglu. Jóhannes telur að eina raunverulega framtíðarlausnin felist í aðgerðum til þess að hægja á umferðinni um Hringbraut.

Mbl.is greinir frá því að á meðal þeirra sem samsinna áköllum um að hægja á umferð við Hringbraut eru Sigurborg Ósk Haraldsdóttir, formaður skipu­lags- og sam­gönguráðs Reykja­vík­ur­borg­ar og borg­ar­full­trúi Pírata, og Gísli Marteinn Baldursson, fyrrverandi borgarfulltrúi og áhugamaður um borgarskipulagsmál.

Ekki eru allir sammála því og þeirra á meðal er Ólafur Guðmundsson, fyrrverandi tæknistjóri EuroRAP, samtökum um umferðaröryggi, sem segir vandamálið tengjast ljósastýringu en ekki hraða. Hann kallar eftir brúm eða undirgöngum í stað þess að minnka hraða. Þetta sagði Ólafur í samtali við Bítið á Bylgjunni í gærmorgun og Eyjan.DV.is greindi frá.

Nýjast