Engir töfrar hjá framsókn

Ekki kallar loforðalisti Framsóknar á ámóta viðbrögð og hann gerði fyrir kosningarnar 2013. Fátt af nýja listanum getur talist frumlegt. Kannski er best að hafa loforð lágstemmd. Engir galdrar framundan í boði Framsóknarflokksins.

Eitt vantar. Núverandi formaður Framsóknarflokksins sagði í samtali við mig fyrir mjög fáum árum: „Hvernig ætlar atvinnugreinin, sjávarútvegurinn, útgerðin að spila með í þessu. Ef þetta verður eingöngu á hendi ríkisins að þá þarf ríkið auðvitað að hafa úr einhverju að spila. Þá gæti verið að við þyrftum að taka aukinn hlut í hlut ríkisins.“

Tilefnið var að Vísir í Grindavík skellti í lás á Þingeyri, Húsavík og Djúpavogi og flutti alla sína starfsemi til Grindavíkur. Þá allt að því hótaði formaðurinn núverandi að hagi útgerðin sér einsog þá, verði Framsókn að mæta.

Ekkert er um þetta á loforðalistanum.

Annað með Framsókn. Á skömmum tíma, örfáum árum hefur Framsókn henst fram og til baka. Þegar flest það fólk sem nú er í forystu fyrir flokkinn var valið til verka samþykkti það og allur flokkurinn að hafa forgömgu um aðildarviðræður við Evrópusambandið.

Skyndilega missti flokkurinn áhugann á þessu helsta baráttumáli sínu.

Það er langur vegur frá hugsjónum Steingríms Hermannssonar og til skoðanna Halldórs Ásgrímssonar og þaðan til Sigmundar Davíðs Gunnlaugssonar og enn á ný hefur Framsóknarflokkurinn tekið stökk, frá Sigmundi Davíð til Sigurðar Inga Jóhannssonar. Kannski hefur flokkurinn lokað hringnum, að Framsóknarflokkur Sigurðar Inga sé einna líkastur Framsóknarflokki Steingríms Hermannssonar.