Ef sigmundur davíð segir satt

Sé það rétt að Sigurður Ingi Jóhannsson, varaformaður Framsóknarflokksins, hafi sagt á örlagastundu síðastliðið vor, þegar afráðið var að Sigmundur Davíð Gunnlaugsson hætti sem forsætisráðherra, að hann myndi aldrei, aldrei fara gegn Sigmund Davíð, aldrei nýta sér aðstæðurnar til að fella hann, er kannski ekki sanngjarnt að segja Sigurð Inga ganga á bak orða sinna. Aðstæðurnar eru aðra en þær voru í apríl. Allt aðrar en vonast var til að þær yrðu nú í haust. Allt aðrar en nokkur sá fyrir.

Silja Dögg Gunnarsdóttir, þingkona Framsóknarflokksins, var í viðtali í Þjóðbraut í gærkvöld. Þar lýsti hún aðdraganda þessa alls og andrúmsloftinu sem unnið var í. Það var opinská og mögnuð lýsing á líðan fólks, áfalli þess og hvernig foringi þeirra missti tiltrú þingflokksins.

Fyrst var það Kastljósþátturinn og svo daginn eftir þegar þingmenn heyra í útvarpi af Bessastaðaför formannsins. Tvöfalt trúnaðarbrot gagnvart þingflokknum, sagði Silja.

Þegar ákveðið var að Sigurður Ingi tæki við keflinu vonuðust allir þingmennirnir að Sigmundi Davíð tækist að hreinsa til í sínum málum og ynni til baka tapað taust.

Silja segir svo alls ekki hafa orðið. Henni var brugðið þegar Sigmundur Davíð sagði, fyrir fáum dögum, að ekki væri kosið nú í haust vegna Wintismálsins. Ljóst er að þegar Sigmundur Davíð ber höfðinu enn í steininn að nú í haust eru uppi allt, allt aðrar aðstæður en þegar Sigmundur Davíð fór frá sem forsætisráðherra og Sigurður Ingi tók við. Það sem þá var sagt á kannski ekki lengur við. Sennilega alls ekki.

-sme