Ráðherra braut lög þegar hann setti rektor án auglýsingar

Kristján Þór Júlíusson braut lög og brást hlutverki sínu sem veitingarvaldshafi í ráðherratíð sinni sem mennta- og menningarmálaráðherra þegar hann setti Sæmund Sveinsson tímabundið í embætti rektors Landbúnaðarháskóla Íslands án auglýsingar.  

Þetta er niðurstaða umboðsmanns Alþingis í nýlegu áliti en Stundin fjallaði um ráðninguna í fyrra og greindi frá pólitískum afskiptum af valinu á rektor, meðal annars um aðkomu þingmanns Sjálfstæðisflokksins.

Ráðherra setti Sæmund Sveinsson tímabundið í stöðu rektors þann 1. október 2017. Áður hafði starfið verið auglýst og þrír umsækjendur verið metnir hæfir af valnefnd sem tilnefnd var af háskólaráði skólans. Aðeins einn var talinn búa yfir nægri stjórnunarreynslu en honum reyndist ófært að koma til starfa innan viðunandi tímamarka. 

Háskólaráð Landbúnaðarháskólans brást við þessu með því að útbúa lista yfir hugsanleg rektorsefni í samstarfi við mennta- og menningarmálaráðuneytið. Var þá stefnt að því að fá einhvern sem væri ótengdur ýmsum ágreiningsmálum sem höfðu skekið skólann mánuðina og árin á undan.