Á sigurstundu

Á sigurstundu, eins og í gærkvöldi þegar Valur varð Íslandsmeistari í knattspyrnu í 21. skipti, leitar hugurinn ósjálfrátt til þeirra sem vörðuðu veginn að Hlíðarenda fyrir áratugum. Mörkuðu spor í sögu Vals sem verða aldrei afmáð og við eigum að halda í heiðri, þegar vel gengur og ekki síst í ólgusjó. Meistaraflokkur Vals í knattspyrnu var að skrifa SÖGUNA sem er svo mikilvæg og við eigum að varðveita af fremsta megni. Annars fennir í sporin.
Þegar leikmenn fögnuðu Íslandsmeistaratitlinum í Lollastúku í gærkvöldi, með sigurblik í augum, gleði í hjarta, afslappaðir, hláturmildir og yndislegir, varð mér litið á myndina af Lolla, einu ljósmyndina sem prýðir Lollastúku. Hugurinn reikaði til hans og fann eftirmæli sem ég skrifaði um ,,köttinn“ eins og hann var kallaður sökum knattleikni sinnar. Og ég birti þessa mynd úr Morgunblaðinu í dag minnugur þess að Lolli flýtti sér alltaf heim eftir sigurleiki, til að fá úrslitin staðfest í útvarpinu eða sjónvarpinu, jafnvel þótt hann hefði verið meðal áhorfenda.
Valur er á þessum sigursæla stað í dag, í handbolta, fótbolta og körfubolta, sökum þess að það hafa verið einstaklingar í félaginu sem hafa tekið VAL fram yfir eigin velgengni. Einstaklingar sem hafa lagt grunninn sem iðkendur eru að njóta í dag. Einstaklingar sem láta sig aldrei vanta og vita sannarlega hvar þeir ,,eiga heima“ -- að Hlíðarenda. Þess vegna eigum við öll að minna okkur á það að Valur er ein fjölskylda og að Hlíðarenda eiga allir að njóta sín í leik og starfi.
Við eigum aldrei að taka neinu sem sjálfsögðum hlut og muna, að til þess að verða sigurvegari innan vallar sem utan, skipta litlu hlutirnir mestu máli. Þá hluti þarf ekki að útskýra fyrir sigurvegurum. En hluti af eftirmælum um Lolla voru eftirfarandi:
,,Þótt Lolli hafi átt því láni að fagna að verða margfaldur Íslandsmeistari og heilla knattspyrnuáhugamenn upp úr skónum með leikni sinni og hraða voru það vinirnir í Val, félagsskapurinn að Hlíðarenda og hin glæsilegu ungmenni sem voru honum efst í huga síðustu áratugina.
Mér er sá dagur minnisstæður þegar ég ók Lolla heim að Hlíðarenda fyrir nokkrum árum. Hann var þögull og eftirvæntingarfullur enda hafði hann ekki komið niður á Valsvöll um tveggja ára skeið sökum lasleika. Þegar við renndum fram hjá Friðrikskapellu trítluðu nokkrir brosmildir Valsstrákar yfir veginn og spörkuðu bolta á milli sín. Æskufjör lék um andlit þeirra, vorfiðringur í tánum. \"Ó, hve þetta er fögur sjón,\" sagði Lolli og andlit hans ljómaði. Tilfinningaþrungin þögn ríkti á meðan Lolli naut þess að fylgja drengjunum eftir í huganum. Hann hafði augljóslega slegist í hópinn, léttur í lund, til að finna ilminn af grasinu, til að gantast við félagana, til að leika listir sínar, til að njóta augnabliksins en umfram allt - til að vera á þeim stað þar sem hann naut sín best - að Hlíðarenda. Lolli felldi tár, hendur hans titruðu. ,,Hérna vorum við svo að moka flórinn,\" sagði hann eftir andartak og leit á gamla fjósið sem var um árabil eina félagsheimili Vals. ,,Og við bárum skítinn út á völl, svo grasið sprytti hraðar.\"
Á meðan Lolli hafði heilsu til sótti hann alla heimaleiki félagsins og við, sem héldum uppi heiðri Vals á knattspyrnuvellinum í lok áttunda áratugarins og á þeim níunda, nutum þess að hafa Lolla í návist okkar. ,,Er ekki húmorinn í lagi?\" voru einkunnarorð Lolla og hann brýndi fyrir okkur að njóta þess að spila knattspyrnu, sagði það lykilinn að velgengni. Lolli var eins og grár köttur í kringum okkur, jákvæður og hvetjandi. Og hann þreyttist aldrei á að sýna okkur hvernig ætti að taka ,,kontrabolta\" sem hann gerði svo listavel. Lolla þótti aldrei auðvelt að horfa á leiki sökum spennings og þótt hann hafi orðið vitni að sigri Vals trúði hann aldrei úrslitunum fyrr en hann var kominn heim og heyrði þau tíunduð í fréttum útvarpsins. Þá gat hann loksins slakað á. Sæll og glaður.
Lolli markaði djúp spor í sögu Vals, spor sem verða aldrei afmáð. Þótt Lolli ætti góða að var Valur hans fjölskylda, hjartsláttur hans var að Hlíðarenda. Fyrir hvern einasta leik meistaraflokka Vals í knattspyrnu hringdi Lolli í húsverðina og bað fyrir góðar kveðjur. Hugur hans var hjá þeim sem léku fyrir hönd Vals, þeirra var framtíðin. Hann gat svo auðveldlega sett sig í þeirra spor. Síðustu æviárin bjó Lolli í lítilli íbúð í Hátúni. Hann vildi vera einn með sjálfum sér en engu að síður var notalegt að líta við hjá honum. ,,Elsku drengurinn,\" sagði hann jafnan, ,,komdu fagnandi\".
Að lokum óska ég Íslandsmeisturum Vals, leikmönnum, þjálfurum, stjórninni, sjálfboðaliðum og okkur öllum til hamingju. Við látum verkin tala, virðum andstæðinga okkar og fögnum sigrum með auðmýkt að leiðarljósi, auðmýkt sem endurspeglar gleði og væntumþykju hvert fyrir öðru.

Þorgrímur Þráinsson
formaður Vals