Enginn fótur fyrir gagnrýni

„Það fyrsta sem mér datt í hug var að þeir væru ennþá á Klaustur bar, væru ennþá í sömu umræðunni og þeir væru ennþá á sama lága planinu,“ segir Guðmundur Ingi Kristinsson þingflokksformaður og varaformaður Flokks fólksins um skýringar Karls Gauta Hjaltasonar á ummælum sínum á Klaustri.

Guðmundur Ingi var gestur Lindu Blöndal í frétta- og umræðuþættinum 21 á Hringbraut í gærkvöldi.

Karl Gauti, sem var einnig gestur í 21 í gær, skrifaði grein í Morgunblaðið þar sem hann gagnrýnir að Inga Sæland, formaður flokksins, sé líka gjaldkeri  hans og af þeim sökum hafi hann á Klaustri sagt hana óhæfa til að leiða flokkinn. Í greininni gagnrýnir Karl Gauti einnig að Inga sé handhafi prókúru flokksins og að sonur hennar hafi verið ráðinn á skrifstofu flokksins.  Ólafur Ísleifsson þingmaður tekur undir með Karli Gauta og Halldór Gunnarsson, fyrrverandi stjórnarmaður í flokknum, gerir það sömuleiðis. 

„Þeir eru búnir að vera að ýja að þessu og hinu en það er ekki fótur fyrir neinu. Þeir hafa ekki getað sýnt neitt sem er rangt. Ég er stoltur af fjármálum flokksins, hvernig staðan er í flokknum. Við erum í plús, þetta eru fjármunir sem við erum að fá frá ríkinu og við pössum vel upp á þá. Það er ekkert athugavert,“ segir Guðmundur Ingi.

Varðandi ráðningu sonar Ingu segir Guðmundur Ingi að það sé mikilvægt að hafa fólk með sér sem hægt sé að treysta 100% Hann hafi byrjað sem sjálfboðaliði og hafi staðið sig frábærlega í sinni vinnu og enginn kvartað undan honum. Allir hafi svo samþykkt ráðningu hans: „Halldór Gunnarsson og Karl Gauti, þeir samþykktu þetta sem sitjandi stjórnarmenn. Svo er það allt í einu eitthvað voða „issue“ eftir á,“ segir Guðmundur Ingi einnig og bætir við að Inga hafi ekkert komið sjálf að ráðningu sonar síns. Hún hafi raunar ætlað að ráða annan í hans stað vegna tengslanna.

Þá segir Guðmundur Ingi að Inga sé ekki lengur gjaldkeri flokksins, hún hafi sagt sig frá því starfi fyrir mánuði síðan.

Horfa má á viðtalið við Guðmund Inga í heild sinni hér að neðan: