Procar svindlið - „Enginn að gera neitt“

Framkvæmdastjóri FÍB er gestur í 21 í kvöld:

Procar svindlið - „Enginn að gera neitt“

Runólfur Ólafsson, framkvæmdastjóri FÍB, er gestur Lindu Blöndal í frétta- og umræðuþættinum 21 á Hringbraut í kvöld. Þar ræðir hann Procar svindlið, sem ljóstrað var upp um í fréttaskýringaþættinum Kveik á RÚV í febrúar. Í því stórtæka svindli átti bílaleigan Procar við kílómetramæla fjölda bíla sinna svo þeir virtust minna eknir en þeir voru í raun þegar þeir fóru í sölu.

Runólfur segir málið afar víðfeðmt: „Það er mjög stórt, þeir eru búnir að gangast við því sjálfir að hafa að minnsta kosti átt við 110 bíla. Síðan er þessi óvissa, hversu margir bílar eru hugsanlega þarna til viðbótar. Þessir [110 bílar] voru seldir og sumir voru með einhverja tugi þúsund kílómetra minni akstur á mæli þegar þeir voru seldir heldur en raunverulega var búið að aka þeim.“

Hann segir svik sem þessi margþátta. „Þegar það er verið að standa í svona, þá eru þetta margþátta svik. Það er verið að fá hærra endursöluverð fyrir bifreiðina, það er ákveðinn hvati ef þú ferð á markað og ætlar að kíkja eftir notuðum bílum, þá er einn helsti söluhvatinn: „Hvað er bíllinn ekinn?“ Síðan getur þetta líka haft áhrif á alla þjónustusögu bílsins. Er búið að huga að ýmsum þjónustuþáttum? Hvað með tímareim, og svo framvegis? Þannig að þú ert með mjög stóra óvissu varðandi stöðu og viðhald ökutækisins og þá erum við bara komin hreinlega að öryggismálum að auki, fyrir utan það fjárhagslega tjón sem fólk verður fyrir vegna þess að það er í rauninni að kaupa bifreið sem er miklu meira ekin en það taldi að það væri að kaupa.“

Auðvelt að skrúfa niður mæla

Runólfur vakti máls á svindlinu í pistli sínum í nýjasta tölublaði FÍB blaðsins, þar sem hann gagnrýnir andvaraleysi stjórnvalda vegna þess. Procar er ennþá starfandi og aðspurður um hvernig það megi vera svarar hann: „Ég spyr að því sama, af því að það stendur nú í regluverkinu í sambandi við það að fá heimild til þess að leigja út bifreiðar, að fyrirtæki þurfi að sýna af sér þannig háttsemi að það sé ekki að brjóta gegn lögum og reglum. Standa að sínum málum í anda þess sem að góðir viðskiptahættir kveða á um. Sem er reyndar frekar almennt orðalag en það er alveg ljóst að aðili sem var að leigja út bifreiðar sem voru sagðar eknar 80 þúsund kílómetra en reyndust vera eknir 180 þúsund kílómetra, það eru ekki góðir viðskiptahættir.“

Hann segir ekkert mál að skrúfa niður mæla á bílum. „Það er allt of auðvelt fyrir einstakling að eiga við ökutækjamæli bíls. Það er hægt að kaupa einfaldan hugbúnað á netinu og það er meira að segja leiðbeiningamynd um hvernig að eigi að gera þetta, þannig að þeir hafa sýnt fram á það að það er tiltölulega auðvelt. Þannig að hættan er sú að fleiri aðilar þarna úti sem eru að gera eitthvað svipað og þetta hefur auðvitað mjög neikvæð áhrif á markað með notuð ökutæki.“

Ótrúlegt aðgerðaleysi

Runólfi finnst sem enginn sé að gera neitt í málinu þrátt fyrir að um alvarlegt brot sé að ræða. „Það er ljóst að þetta er auðgunarbrot, þetta er skjalafals, þetta er bara hegningarlagabrot sem hefur verið framið þarna innan veggja þessa fyrirtækis. Einhvern veginn er enginn að gera neitt. Það er eins og allir séu bara að bíða eftir að rykið setjist og þá verði þetta aftur allt í lagi. Þetta er pínulítið eins og strúturinn að stinga höfðinu í sandinn, ég hef það á tilfinningunni.“

„Við kvörtuðum yfir því í upphafi, að lögreglan átti auðvitað að fara inn í fyrirtækið og leggja hald á öll gögn, bara til þess að verja rannsóknarhagsmuni. Það var ekki gert og þetta var bara til skoðunar, lengi til skoðunar, það er kannski ennþá til skoðunar, ég veit það ekki. Mér finnst þetta vera ótrúlegt aðgerðaleysi. Þetta er enn til skoðunar hjá Samgöngustofu og þeir hafa verið að óska eftir einhverjum frekari gögnum,“ bætir hann við.

Runólfur segir sömuleiðis engin viðbrögð hafa fengist frá ráðuneyti neytendamála vegna svindlsins. „Þarna hefði maður séð fyrir sér að menn væru farnir að leggja drög að einhverri lagasetningu til þess að tryggja að svona komi ekki fyrir í framtíðinni. Við sjáum það t.d. í nágrannalöndunum, þar hafa yfirvöld verið að, af því að þetta hefur verið mikið vandamál víða í kringum okkur. Við héldum að við værum svolítið laus við þetta. Maður hélt að þetta væri svolítið flóknara, ég skal viðurkenna það. Þarna er einhver leið, og þetta skapar ákveðna möguleika fyrir óprúttna aðila á markaði ef það er ekki strax gripið inn í.“

Nánar er rætt við Runólf í 21 í kvöld. Þátturinn hefst klukkan 21:00.

Nýjast