Engin ríkisstjórn án framsóknarflokks

Eygló Harðardóttir og Willum Þór Þórsson voru bæði gestir í laugardagsþætti Þjóðbrautar í útvarpi Hringbrautar í morgun. Bæði töluðu fyrir að ekki verði mynduð ríkisstórn án Framsóknarflokksins, og það sem meira er, þau telja að ekki verði mynduð án þess að Framsóknarflokkurinn hafi forystu um það.

Willum Þór og Páll Valur Björnsson voru fyrstu gestir þáttarins. Þeir töluðu um stöðu stjórnmálanna, þar sem Willum Þór sagði Framsókn vanta að borðinu. Hann er viss um að Framsókn þurfi til að mynda ríkisstjórn.

Eygló var gestur með Halldóru Mogensen Pírata og Jónu Sólveigu Elínardóttur, varaformanni Viðreisnar. Eygló talaði á sama veg og Willum Þór. Hvað varðar áhugaleysi annarra á Framsóknarflokknum sagði Eygló að það muni breytast og sagðist hafa alla trú á að ríkisstjórn verði ekki mynduð nema undir forystu Framsóknarflokksins.

Hljóðbrot úr þættinum verða aðgengileg í dag.

-sme