Enn áform um smiðju hafrannsóknaskips

 „Það er engin breyting á áformum um smiðju hafrannsóknaskipsins. Við tókum þessa ákvörðun, sem betur fer, á þessum fræga fundi og í mínum huga er það gríðarlega metnaðarfullt skref sem Alþingi Íslendinga tekur varðandi hafrannsóknir,“ segir Kristján Þór Júlíusson, sjávarútvegs- og landbúnaðarráðherra. Fundurinn sem hann vísar til var milli hans og Sigurðar Guðjónssonar, forstjóra Hafrannsóknastofnunar.

Kristján Þór er gestur Sigmundar Ernis í frétta- og umræðuþættinum 21 á Hringbraut í kvöld.

Í stjórnarsáttmála núverandi ríkisstjórnar er kveðið á um að efla þurfi hafrannsóknir og á sérstökum hátíðarfundi Alþingis á Þingvöllum í tilefni 100 ára fullveldisafmælis síðastliðið sumar var þingsályktunartillaga um að smíða nýtt hafrannsóknaskip samþykkt. Síðar á árinu var þó tilkynnt um niðurskurð stjórnvalda á fjárframlögum til hafrannsókna.

 „Það var ekki búið að útfæra með hvaða hætti stofnunin tækist á við þessi fjárlög sem fyrir lágu. Ég sá það alltaf fyrir mér að við hefðum svigrúm innan ramma ráðuneytisins, sem tekur yfir stærra svið en þrengstu svið Hafrannsóknastofnunar. Svo frétti ég það bara í fjölmiðlum að það standi til að fara að segja upp 20 manns og leggja skipi. Í mínum huga stóð það aldrei til og var aldrei uppi á borðum,“ segir Kristján Þór aðspurður um af hverju skilaboðin hafi verið svo misvísandi.

Hann bætir því við að búið sé að leysa málið og að ekki þurfi að segja upp fólki eða leggja skipi. „Stofnunin gengur sinn vanagang. Það er alveg rými til þess að vinna sig út í gegnum þetta. Stærsti skellurinn stafar af því hvernig fjármögnun stofnunarinnar hefur verið háttað. Stór hluti af fjármögnun Hafró hefur verið í gegnum markaðssjóðinn svokallaða, sem eru tekjur af upptöku ólöglegs sjávarafla. Í mínum huga er það ekki boðlegt að við séum að fjármagna svo stóran hluta af tekjum stofnunar af lögbrotum,“ segir Kristján Þór.

Nánar er rætt við Kristján Þór í 21, sem hefst klukkan 21:00.