Engar aðgerðir vegna fækkunar ferðamanna - „það eru engar skammtímaaðgerðir í gangi“

Búist er við um allt að 20% fækkun á ferðamönnum frá því í fyrra. Ein megin ástæða þessarar fækkunar er gjaldþrot WOW air, en einnig hafa flugfélögin Delta Airlines og Easyjet sagt að þau ætli að fækka flugum til og frá landinu. Ferðamannaiðnaðurinn er einn mikilvægasti iðnaður landsins og hafa margir rekstraraðilar í þeim iðnaði spurt hvort yfirvöld ætli á einhvern máta að bregðast við þessari fækkun. Í samtali við Hringbraut sagði Skarphéðinn Berg Steinarsson, forstjóri Ferðamálastofu, að engar skammtímaaðgerðir væru áætlaðar að hálfu Ferðamálastofu.

„Það eru engar skammtímaaðgerðir í gangi. Ef við vissum um einhverjar aðgerðir sem myndu virka og við hefðum tök á að fara í þá að sjálfsögðu myndum við gera það. Vandinn er hins vegar skortur á flugsætum og í því er heldur lítið að gera til skamms tíma,“ segir Skarphéðinn í samtali við Hringbraut.

Að sögn Skarphéðins er Ferðamálastofa eingöngu að vinna í langtímaaðgerðum.

„Þær aðgerðir sem við vinnum að er langtímaaðgerðir sem lúta að því að styrkja atvinnugreinina og gera hana samkeppnisfærari, segir Skarphéðinn“