Elvar: „Ég lifi“ - Faðmið þau að ykkur sem þið elskið – Safnað fyrir Elvar og fjölskyldu

Elvar: „Ég lifi“ - Faðmið þau að ykkur sem þið elskið – Safnað fyrir Elvar og fjölskyldu

Aðfaranótt 22. ágúst fékk Elvar Geir Sævarsson heilablóðfall eða blóðtappa út frá flysjun á slagæð í hálsi, svokallað Wallenberg syndrome. Elvar var mjög heppinn að lifa af.

Á bráðamóttöku endaði Elvar í hjartastoppi sem varði í skamma stund. Síðan þá hefur hann dvalið á Grensás í stífri endurhæfingu sem og á taugadeild B2. Elvar er allur að koma til og hrósar starfsfólkinu í hástert. Hann fékk nú nýlega að fara aftur heim en endurhæfingu er ekki lokið. Veikindin hafa haft mikil áhrif á fjárhag fjölskyldu hans en hann á soninn Oliver ásamt Ragnheiði Eiríks, einnig þekkt sem Heiða í Unun. Elvar segir:

„Ég sat heima og var að horfa á Star Trek áður en ég færi í háttinn. Skyndilega fann ég einkennilega tilfinningu í hálsinum sem breiddist út aftan á hnakkann og fann þrýsting á bak við vinstra augað. Kaldur sviti spratt fram um allan líkama minn. Ég var að fá heilablóðfall. Þessi tilfinning breyttist skyndilega í sársauka.

Ég var fluttur í skyndi á spítala og á meðan það var verið að sinna mér fór ég í hjartastop sem varði í um 20 sekúndur. Ef ekki væri fyrir fagfólkið á spítalanum, þá væri ég ekki hér til frásagnar.“

Elvar þarf að taka því rólega næstu mánuði. Elvar telur að rekja megi veikindin til meiðsla sem hann varð fyrir á hálsi þegar hann var á ferðalagi síðasta sumar.

„Fyrst og fremst er ég þakklátur fyrir að vera á lífi og sú tilfinning yfirskyggir allan ótta, reiði og sorg vegna áfallsins. Ég er einnig þakklátur fjölskyldu og vinum fyrir stuðninginn sem og heilbrigðisstarfsfólki.“

Elvar hefur eytt mestum tíma sínum í endurhæfingu síðustu vikur en hann var nánast alveg lamaður vinstra megin í líkamanum.

„Elvar segir: Munið að vera góð við hvort annað, ekki fresta því sem þið viljið gera í lífinu og takið utanum þau sem þið elskið.“

Elvar er eins og áður segir ekki tekjuhár en hann hefur starfað sem hljóðmaður hjá Þjóðleikhúsinu.

Föstudaginn 6. desember verða haldnir styrktartónleikar á Hard Rock Café fyrir Elvar og fjölskyldu hans þar sem níu hljómsveitir stíga á stokk. Stefán Magnússon, framkvæmdastjóri Hard Rock segir í samtali við Mannlíf: „Það er dýrt að verða veikur og því fylgir vinnutap. Við viljum síst af öllu að Elvar Geir hafi fjárhagsáhyggjur þegar hann á eingöngu að vera að einbeita sér að því að ná bata. Áfallið að vera kippt út úr sínu eðlilega lífi á augabragði reynir á og þá er gott að finna að maður er ekki einn.“

Þá hefur verið stofnaður styrktarreikningur fyrir Elvar Geir og fjölskyldu hans:

Reikningur: 0370-22-018601, Kennitala: 120583-3609.

Hér má nálgast miða á tónleikanna

Vinsamlegast deilið

Nýjast