Eldar slökktir í stað aðgerða

Erlendum nemendum fjölgar stöðugt, hópurinn verður breiðari og þarfir hans sértækari, segir Kristrún Sigurjónsdóttir, deildarstjóri móttökudeildar Lækjarskóla í Hafnarfirði. Á sama tíma hækkar sú upphæð ekki sem sveitarfélög landsins setja í málaflokkinn, sem þýðir að starfsmenn eru fremur í því að slökkva elda í staðinn fyrir að fyrirbyggja að upp komi vandræði.

Þetta er meðal þess sem fram kemur í Skólanum okkar – 2. þætti – sem var sýndur á sjónvarpsstöðinni Hringbraut í gærkvöld. Efni þáttarins var helgað stöðu flóttabarna í íslenskum skólum. Fram kemur í þættinum að skólinn er afar mikilvægu þessum börnum, einkum er kemur að því að læra íslensku og mynda félagsleg tengsl.

Fríða Bjarney Jónsdóttir, verkefnastjóri í fjölmenningu í leikskólum Reykjavíkur, tekur undir orð Kristrúnar í þættinum. Hún segir verkefnum í tengslum við þennan hóp barna og ungmenna fjölga hratt og starfsfólk sem vinni að málaflokknum þurfi að aðlaga sig og læra af reynslunni um leið og það sinnir öllum þeim málum sem upp koma.

Fríða segir nauðsynlegt sé að tryggja fjármagn til málaflokksins það þurfi ekki síður að tryggja menntun fólks. Bæta þurfi fræðslu um þetta málefni í kennaranáminu enda þurfi allir kennarar, hvort sem er í leik-, grunn- eða framhaldsskóla, að takast á við fjölbreyttan nemendahóp.

Þá er í þættinum afar áhugaverð frásögn Bakir Anwar Nassar af skólagöngu hér á landi. Bakir kom hingað til lands frá Írak þegar hann var hann tíu ára. Hann stundaði grunnskólanám í Brekkubæjarskóla á Akranesi og hefur lokið stúdentsprófi. Hann segir skólann hafa skipt sig miklu máli, einkum við að læra tungumálið en ekki síður hafi verið gott að hafa nóg fyrir stafni.

Þá segja Hasti Merhmozhdehi og Ali Malaei, frá Afganistan, frá reynslu sinni af íslensku skólakerfi.

Hægt er að horfa á þáttinn á vef Hringbrautar.

Næsti þáttur Skólans okkar fjallar um tækni og spjaldtölvur í skólastarfi.

Fréttin birtist fyrst á Skólavörðunni.