Eldar helst aldrei, en sækir í óttann

Vinsælasti krimmahöfundur landsins segir heldur óvenjulega sögu sína í Mannamáli í kvöld, þar á meðal frá fremur bágbornum húsmóðurtilburðum sínum í heimahúsinu úti á Nesi, en Yrsa Sigurðardóttur eldar helst aldrei og gæti lifað alla ævina á spældu eggi og flatbrauði með osti.

Hún segir áhorfendum Hringbrautar frá því í kvöld hvernig hún fer að því að skrifa bækurnar sínar sem selst hafa í bílförmum heima og erlendis á síðustu þrettán árum sem krimmarnir hennar þrettán hafa verið að birtast, svo og draugasögurnar sem grunnurinn var lagður að uppi á Kárahnjúkum um árið þar sem hún sat einsömul í myrkrinu inni í vinnuskúr á kvöldin og hóf að vefa hryllinginn milli þess sem hún stökk út í skurðina á daginn, konan í karlaheiminum, fyrsta stúlkan sem vann á virkjanasvæðum innan um allan karlaskarann. Og vel að merkja; hún slapp við allt káf og þukl, svo það sé á hreinu, en varð að láta sig hafa það þótt myndir af fáklæddum konum væru upp um alla veggina á kaffistofunni.

Fullu nafni heitir hún Vilborg Yrsa Sigurðardóttir, en fyrra skírnarnafnið, heitið hennar ömmu, datt af sakir þess að það komst ekki fyrir á einni barnabóka hennar sem hún gaf út áður en kom að reyfaratímabilinu. Og það úthaldið hefur nú staðið yfir í nærfellt hálfan annan áratug - og núna, þessi dægrin í skammdeginu, er hún einmitt byrjuð að leita að næsta \"góða\" glæp, eða ef til vill \"hæfilega slæmum\" vettvangi fyrir nístandi draugasögu sem líklega verður ofan á þegar skrifin fara á fullt í janúar á nýju ári.

Mannamál byrjar klukkan 20:30 í kvöld.