Ekki þöggun að bíða með fréttir af nauðgun

Ingólfur Harðarsson, frumkvöðlafræðingur hefur unnið með fórnarlömbum kynferðismisnotkunar og hefur sjálfur reynslu af kynferðislegri misnotkun á barnsaldri. Hann segir í viðtali á Hringbraut í kvöld, að hann taki undir ákvörðun lögreglustjórans í Vestmannaeyjum um að upplýsa fjölmiðla ekki jafnóðum um kynferðisbrot á þjóðhátíð í eyjum. Ingólfur hefur verið ötull talsmaður þess að lyfta hulunni ofan af kynferðisofbeldi.

„Það er enginn vafi að í mínum huga er það þolandanum til hagsbóta að hann eða hún fái svigrúm og komist til síns heima áður en tilkynnt er til fjölmiðla um atburðinn. Fullyrðingar um að þetta sé þöggun á alls ekki við hér“, segir Ingólfur. „Það er einfaldlega verið að gefa þolandanum rými til að komast á þann stað þar sem hann finnur öryggi. Þegar nauðgun á sér stað er viðkomandi öryggislaus og í þessum tilfellum langt frá sínu heimili og sínum nánustu. Því þarf manneskjan rými og frið til að jafna sig áður en fréttir berast í fjölmiðlum. Þeim sem hefur verið nauðgað líður oft eins og það sjáist utaná þeim og það þarf ekki að auka á það með fréttum sem birtast samstundi“, segir Ingólfur. Hann tekur undir að það hafi gert öllum gott að þolendur stígi fram og segi frá reynslu sinni og losi sig undan skömminni og að upplýsa verði um fjölda kynferðisbrota hvar sem þau gerist. Það þurfi hins vegar hver einstaklingur að fá andrými til að styrkjast og átta sig á hvað hefur gerst, áður en allt er opinberað.