Ekki samþykkja skilmála í blindni

Allt sem við gerum á netinu, þar með talið í snjallsímum okkar, skilur eftir sig slóð sem hægt er að rekja. Um mitt síðasta ár tók gildi ný og mun strangari persónuverndarlöggjöf í öllum aðildarríkjum ESB og EES. Tilgangurinn er að bregðast við tækniframförum í vinnslu persónuupplýsinga og að tryggja réttindi almennings.

Öpp á snjallsímum safna gjarna viðkvæmum persónuupplýsingum, stundum með leyfi okkar en stundum án þess. Fólk er lítið í því að lesa skilmála vegna þessa, séu þeir á annað borð tilgreindir.

„Fyrirtæki hafa ekki verið gagnsæ og þau hafa ekki upplýst neytendur um hvaða upplýsingar þau vinna, í hvaða tilgangi þær eru unnar og hver fær aðgang að þeim. Það er að verða betra með þessum nýju og ströngu persónuverndarlögum. Nú verða fyrirtæki á einfaldan hátt að segja neytendum hvað þau séu að gera við upplýsingarnar þínar. Hin hliðin á teningnum er sú að það er á ábyrgð neytenda að lesa skilmálana, átta sig á hvaða upplýsingum við erum að veita aðgang að, viljum við það eða ekki og að nálgast þessi öpp og samfélagsmiðla með gagnrýnu hugarfari. Ekki bara ýta á „Samþykkja“ og „Áfram“ án þess að pæla nokkuð í því,“ segir Alma Tryggvadóttir, persónuverndarfulltrúi Landsbankans og áður lögfræðingur hjá Persónuvernd.

Alma er gestur Lindu Blöndal í frétta- og umræðuþættinum 21 á Hringbraut í kvöld.

Strangari persónuverndarlöggjöf

Um hvað felist í nýju persónuverndarlöggjöfinni segir Alma: „Aukinn réttur einstaklinga, strangari ábyrgð fyrirtækja, meira gagnsæi og samræmi. Nú eiga þessi lög jafnt við um alla sem vinna persónuupplýsingar sama hvar þeir eru í heiminum.“

„Persónuvernd á Íslandi hefur eftirlit með því að fyrirtæki og stjórnvöld fari að þessum lögum,“ segir Alma einnig og bætir því við að öll fyrirtæki vinni persónuupplýsingar upp að einhverju marki. Það geti verið viðskiptavinir, starfsmenn, verktakar eða birgjar.

Einstaklingar eiga líka sinn rétt að sögn Ölmu. „Einstaklingar geta núna óskað eftir aðgangi og afritum af öllum persónuupplýsingum sem fyrirtæki vinna um þá,“ segir hún. Hún bætir við að þeir geti lagt fram kvörtun hjá persónuverndaryfirvöldum Evrópu ef þeir telja á sér brotið, þ.e. ef það er ekki verið að virða réttindi þeirra og þeim t.d. ekki veittur aðgangur að gögnum. Einnig er hægt að leita til dómstóla, sem geta skorið úr um hvort einhver brot hafi verið framin og hvort tilefni sé til að leggja skaðabætur eða háar sektir á fyrirtæki.

Nánar er rætt við Ölmu í 21, sem hefst klukkan 21:00 í kvöld.