Ekki fjölgað í landsrétti að sinni - brýnt að bregðast við vandanum

Eftir að Mannréttindadómstóll Evrópu kvað upp dóm sinn í Landsréttarmálinu fyrir tæpum mánuði síðan hafa fjórir af 15 dómurum millidómstigsins ekki verið við störf. Dómsmálaráðherra segir ekki standa til að fjölga í réttinum á þessu stigi. Vísir greinir frá.

„Ég mun áfram skoða aðra fleti málsins en á þessu stigi verða ekki teknar frekari ákvarðanir. Í því felst að ekki verður lagt fram frumvarp um fjölgun dómara við Landsrétt að svo stöddu eða teknar ákvarðanir um aðrar útfærslur vegna Landsréttar að svo stöddu,“ segir Þórdís Kolbrún Reykfjörð Gylfadóttir dómsmálaráðherra í samtali við Fréttablaðið.

Í tilkynningu frá Þórdísi Kolbrúnu í gær var greint frá því að ríkisstjórnin hyggist áfrýja dómnum til efri deildar MDE, í ljósi mikilvægra hagsmuna sem dómurinn snertir á hérlendis. „Málið snertir mikilvæga hagsmuni hér á landi enda snertir dómur MDE dómsvaldið á Íslandi og íslenska stjórnskipan,“ segir hún í samtali sínu við Fréttablaðið.

Benedikt Bogason, stjórnarformaður dómstólasýslunnar segir afar brýnt að brugðist verði við vanda Landsréttar án tafar, þar sem dráttur fari að verða á meðferð mála við réttinn og vandinn verði erfiður viðureignar muni hann vinda upp á sig.