Ekki er ég hissa

Ekki er ég hissa þegar ungt fólk sem veit að það getur komið sér fyrir í öðrum löndum, og lifað þar, fer frá okkur. Ég er bara ekkert hissa. Við verðum að sætta okkur við að við búum þessu fólki ekki eins góða möguleika til lífsins og þau fá í nágrannalöndunum. Un þetta ættu íslensk stjórnmál að snúast, fyrst og fremst.

Nú fáum við daglega illar fréttir af rekstri leikskóla. Þar eru ekki til peningar til nauðsynlegra hluta og þarfa. Við vitum ósköp vel að hjá nágrannaþjóðunum er allt annað uppi á teningnum. Og ekki bara það. Þar er mun ódýrara að hafa börn á leikskólum og að auki eru barnabætur allta aðrar og hærri. Niðurstaðan er sem sagt sú; þar er betur búið að leikskólunum og foreldrarnir borga mun minna úr eigin vasa.

Þar er ódýrara að leita lækninga og annarra þesskonar þjónustu. Munurinn er mikill. Matur hér er dýrari en víða. Og fleira má telja til.

Það sem samt mestu skiptir eru húsnæðismálin. Leigumarkaðurinn, vextirnir og allt annað sem gerir það ungt fólk hér hjá okkur á á hættu að geta ekki fest rætur sökum okurvaxta og ótryggs leigumarkaðar. Húsnæðisvextir hér eru marg-, margfaldir á það sem gerist í næstu löndum.

Þess vegna fer ungt fólk. Fólkið sem við treystum á til að taka við samfélaginu. Þróunin er okkur vond, hún er okkur dýr. Það versta er að við eigum engin svör. Við getum ekki lofað unga fólkinu einu né neinu. Þeirra býður bjartari framtíð þar en hér.

Eitt er víst. Helsti valdaflokkur Íslands hefur boðað að hann muni umfram annað verja það kerfi sem hann hefur skapað hér. Með mismikilli hjálp annarra flokka.

Unga fólkið fer. Ekki er ég hissa.