Eistakt samband við dönsku þjóðina

Við Íslendingar eigum einstakt samband við dönsku þjóðina. Hafandi verið hluti af danska ríkinu um langt skeið megum við vel gæta að því að verr hefði getað verið fyrir okkur komið ef önnur þjóð en sú danska hefði átt í hlut. Sjálfstæðisbarátta Íslendinga á 19. öld fór fram í góðum friði og þar sem okkar glæsti forystumaður var lengst af á launum hjá danska ríkinu.

Við minnumst nú samkomulags milli þjóðþinga landanna um frjálst og fullvalda Ísland fyrir eitt hundrað árum. Við fórum kannski ekki eins gætilega og skyldi við stofnun lýðveldisins og opnuðum sár í hjörtum vina okkar sem ekki töldu samræmast fyllstu kröfum um drengskap í samskiptum að slíta sambandinu þegar Danir lágu undir járnhæl nasista.

Samt ákváðu Danir að skila handritunum heim til Íslands sem allir hugsandi menn vita að engin önnur þjóð hefði gert. Þeim drengskap og vináttu munu Íslendingar aldrei gleyma. Þess vegna mun ekki að undra þótt mörgum Íslendingum sárni að fulltrúa danska þjóðþingsins og dönsku þjóðarinnar skuli ekki sýnd sú kurteisi og virðing sem hæfir á hátíðarstundu þar sem minnst er mikilvægra tímamóta í samskiptum við okkar nánustu vinaþjóð. Þeir aðilar sem varpa skugga á Íslendinga í hugum Dana, rýra álit og virðingu íslensku þjóðarinnar í Danmörku mættu hugsa sitt ráð.