Einlífið hefur hentað mér vel

Í fyrsta sinn sem ég vaknaði við hliðina á karlmanni eftir að hafa fengið fullnægingu með honum, fann ég að ég var kominn heim, segir rithöfundurinn og mannréttindafrömuðurinn Þorvaldur Kristinsson í afskaplega persónulegu og einlægu viðtali í Mannamáli í kvöld.

Þar segir hann hispurslaust frá því þegar hann kom út úr skápnum eftir að hafa verið kvæntur um sjö ára skeið - og frá sársaukanum mikla, að skilja við konuna sem vissi undir restina að Þorvaldur var meira fyrir sitt eigið kyn en hitt kynið.

Hann fer yfir sögu samkynhneigðra fyrr og síðar - og minnist allra vinanna sem hann missti vegna alnæmis; á tímabili hafi hann og vinir hans hist miklu oftar í jarðarförum en á börunum niðri í bæ - og svo talar hann um eigið einlífi, en hann hefur ekki verið í sambúð um langt árabil og það henti honum vel, þótt auðvitað hafi kærastarnir ratað heim til hans eftir því sem tímanum hefur fleygt fram.

Viðtalið er ekki síst tekið i tilefni af útkomu nýjustu bókar Þorvaldar um sögu Helga Tómassonar, ballettdansara sem er heillandi sigursaga, svo lipurlega skrifuð og unun er að lesa frá bernskárunum í Eyjum til ævintýranna vestur í San Fransisco - og raunar um heim allan.

Mannamál byrjar klukkan 20:30 í kvöld.