Einkabíllinn veldur vandanum - veggjöld því góður valkostur

Það er afskaplega áanægjulegt að borgarstjóri og allir bæjarstjórar á höfuðborgarsvæðinu hafi ásamt forkólfum ríkisstjórnarflokkanna náð saman um úrræði í vegabótum á þéttbýlasta horni landsins – og raunar sögulegt, en á sama tíma skýtur Eyþór Arnalds, oddviti sjálfstæðismanna í borginni sig í fótinn með sérstöðu sinni í málaflokknum.

Þetta er mat þeirra Jóns Kaldals og Róberts Marshall sem setjast hjá Sigmundi Erni í Ritstjórunum á Hringbraut klukkan 21:00 í kvöld – og bæta við; stjórnmálamenn sem tali sig svona út í horn, eins og Eyþór, svo og Sigmundur Davíð, séu að færa sig fjær völdum og ýmist að einangra fylgi sitt eða tala til hóps sem fæstir ef nokkrir vilja vinna með.

Þeir eru hrifnir af veggjöldum, telja eðlilegt að fyrirferðamesti vandinn í umferðinni, einkabíllinn, borgi fyrir notkun sína á vegunum í meira mæli en nú er gert; hér gildi orsök og afleiðing og ekkert sé óeðlilegt við það að stýra umferðinni með þessum hætti; buddan breyti hegðun manna og það verði að gera á þessu sviði.

Svo er það pólitíkin, góð byrjun Áslaugar Örnu á ráðherrastóli og gott val Bjarna Ben á þeim ráðherra sem vitni um frjálsari tíma í flokknum; hann sé augljóslega byrjaður að tala flokkinn sinn frá neikvæða niðurrifshópnum í Miðflokksarminum.