Einar ósáttur og sagði við Grím: „Vertu ekki aumingi“

Einar ósáttur og sagði við Grím: „Vertu ekki aumingi“

Einar Kárason, varaþingmaður Sam­fylkingarinnar á líklega umdeildustu ummæli dagsins. Hann tjáði sig á Facebook-vegg Loga Einarssonar formanns Samfylkingarinnar. Hefur verið hart sótt að Einari vegna þeirra. Logi deildi frétt Fréttablaðsins um að ríkið hafni öllum bóta­kröfum Guð­jóns Skarp­héðins­sonar, sem sýknaður var af aðild að hvarfi Geir­finns Einars­sonar í fyrra. Logi kveðst gáttaður og segir framkomuna vera ósvífni. Þá bætir hann við að eðlilegt sé að ríkið hefði fallist í það minnsta á bótaskyldu. Þá segir Logi að ábyrgðin sé á höndum ráðherra.  

Margir taka undir með Loga, nema Einar Kárason. Hann segir:

„Þegar sýnt var að það yrði haldið til streitu kröfum upp á samtals tíu milljarða eða meira gat ríkið ekki annað en brugðist til varna.“

Logi Einarsson svaraði:
 
Eitt er að takast á um bótafjárhæð Einar, annað og ósvífið að krefjast sýknu og meira að segja málskostnaðar!
 
Grímur Atlason formaður Geðhjálpar, tekur til máls: „Þetta finnst mér óeðlilegt af réttsýnum manni að henda út í loftið. Varnir ríkisins eru þessar: „Úr því að Guðjón hafnar bótaupphæð ríkisins er ekkert að marka sýknudóminn og gamli dómurinn (réttarmorðið) frá 1980 er réttur. Í ofanálag leggur ríkið fram þá kröfu að Guðjón greiði allan málskostnað. Gísli Guðjónsson sagður ótrúverðugur o.s.frv. Þetta er eiginlega algjörlega sturlað. Þú nefnir einhverja tölu út í bláinn en í rauninni þykir mér hún ekkert of. Menn hafa selt auðlindir, fengið starfslokasamninga o.s.frv. sem eru með tölum sem mér blöskrar. Að eyðileggja líf fjölda manna fyrir 45 árum með þeim hætti sem íslenska ríkið gerði á að kosta umtalsverða peninga. Ef ríkið er ósátt við kröfurnar á það ekki að grípa til ömurðarinnar sem ríkislögmaður gerði. Skömm. “ Þá segir Grímur á öðrum stað:

„Ríkið tók til varna með skelfilegum og ómerkilegum hætti. Það gat gert u.þ.b. allt annað.“

Þá sagði Einar Kárason að árið 1976 og þar á eftir hafi allir talið sig vita, sem ekkert vissu, allt um málin. Segir hann að nú sé sama staða komin upp. Grímur spurði þá á móti hvort eitthvað væri sambærilegt við ofbeldið, mörg hundruð daga einangrunina „og viðbjóðinn sem sakborningarnir urðu fyrir svo mætti fremja á þeim réttarmorð og stöðunni í dag?“

Einar svaraði: „Á sama tíma vændi allskyns fólk ákveðna menn sem það þekkti ekkert hiklaust um „morð“ rétt eins og þú gerir núna.“

Grímur svaraði á móti að hann væri ekki að væna neinn um eitt né neitt. Það hafi einfaldlega verið framið réttarmorð. Grímur sagði:

„Hinir dæmdu voru sýknaðir og vitni, sönnunargögn og framburður hinna dæmdu staðfestir það. Eitt er að væna annað að benda á blákaldar staðreyndir. Ég er að gera hið síðarnefnda.“

Einar fékk þá nóg og svaraði Grími. „Ekki að væna neinn um neitt segir þú, en segir samt að það hafi verið framið réttarmorð. Framdi enginn það? Morð er stórt orð. Komdu með nöfn þeirra manna sem frömdu morðið. Vertu ekki aumingi.“

Nýjast