„Eina sem kemst að í umræðunni er hvað aðrir fengu“

Ásgeir Jónsson hagfræðingur er gestur í 21 í kvöld:

„Eina sem kemst að í umræðunni er hvað aðrir fengu“

Ásgeir Jónsson hagfræðingur
Ásgeir Jónsson hagfræðingur

„Það eru læknar sem fá miklar kauphækkanir, þá koma verkamenn í kjölfarið og vilja fá sambærilegar hækkanir og alltaf er verið að ræða um launaleiðréttingar. Þá koma fram kauphækkanir sem eru úr öllu samhengi við framleiðni eða þjóðhagslegt jafnvægi og það eina sem kemst að í umræðunni er hvað aðrir fengu“, segir Ásgeir Jónsson hagfræðingur um það sem hann kallar þjóðaríþrótt Íslendinga, höfrungahlaup svokallað.

Höfrungahlaup er skilgreint sem leikur sem tekur til þess hvernig mismunandi stéttir eða starfsgreinar berja fram launaleiðréttingar til skiptis án tillits til efnahagslegra aðstæðna. Þetta kemur fram í grein Ásgeirs, „Um þjóðaríþrótt Íslendinga – höfrungahlaupið“, sem birtist á dögunum í tímaritinu Þjóðmál.

Ásgeir er gestur Björns Jóns Bragasonar í sjónvarpsþættinum 21 á Hringbraut í kvöld. Þar ræðir hann höfrungahlaup, rekur sögu þess og setur í samhengi við kjaraviðræðurnar sem standa sem hæst um þessar mundir.

Stéttasamanburður

Um stéttasamanburð er að ræða að mati Ásgeirs. „Það er endalaus þannig samanburður, við sjáum það bara í dag þegar verið er að fjalla um lausa kjarasamninga. Það er ekki verið að tala um svigrúm í kerfinu eða hvernig gengur að reka fyrirtækin. Það er bara verið að tala um kjararáð, úrskurði þess og laun Alþingismanna. Það er svona alveg dæmigert. Við sjáum það líka árið 2015 þegar það átti að vera þjóðarsátt um að hækka laun lækna, þá áttu aðrar stéttir að koma í kjölfarið“, segir Ásgeir einnig.

Nánar er rætt við Ásgeir í 21 sem hefst klukkan 21:00 í kvöld.

Nýjast