Egilssynir tóku á davíð: fangarnir á kvíabryggju fengu afslátt á krónum – keyptu eignir sem fólk missti í hruninu á hrakvirði

Bræðurnir Gunnar Smári Egilsson, fyrrverandi ritstjóri Fréttablaðsins og Fréttatímans, og Sigurjón M. Egilsson ritstjóri Miðjunnar voru gestir Lindu Blöndal í þættinum Ritstjórarnir á sjónvarpsstöðinni Hringbraut í gærkvöldi. Ræddu þeir meðal annars nýja bók Svein Harald Øygard, fyrrverandi seðlabankastjóra Íslands, Í víglínu íslenskra stjórnmála. Í bókinni segir að Icesave hafi verið útfært við eldhúsborðið heima hjá Davíð Oddssyni í samkrulli við þá sem stýrðu stærstu bönkum landsins. Linda Blöndal spurði hvort þetta væru nýjar upplýsingar.

„Ég held að þetta sé alveg nýtt. Ég skrifaði alveg helling um þetta mál og fékk viðurkenningu fyrir skrif mín um aðdraganda hrunsins en ég man aldrei eftir að hafa heyrt þetta,“ svaraði  Sigurjón. Þá tók Gunnar Smári til máls:

„Þetta passar, maður trúir þessu vegna þess að, til dæmis, þegar Sigurjón [Þ. Árnason] í Landsbankanum var að tala um að þeir hefðu bjargað sér raunverulega á Icesave og var í viðtali og sagði: „Heyrðu bíddu, það duttu inn bara hérna fjórtán milljarðar núna áðan.“ Þá voru þeir svo rosalega sannfærðir um að þetta væri lausnin. Ekki bara að þeim hafi fundist það, heldur eftir á, þá hljómar þetta þannig að þeir hafi verið vissir að þetta væri almennt samþykkt sem lausnin.“

Bætti Gunnar Smári við að Sven Harald væri að benda á að með þessu hafi átt að leysa lausafjárvanda bankanna. Sigurjón bróðir hans skaut þá inn í að allt þetta hefði verið skipulagt á Fáfnisnesinu heima hjá Davíð Oddssyni.

Aðspurðir hvort uppgjörið við hrunið væri ekki lokið svöruðu bræðurnir neitandi. Gunnar Smári tók fyrst til máls og sagði að enn í dag ættu sér stað látlaus átök um að endurskrifa söguna.

„Davíð er orðinn ritstjóri Morgunblaðsins haustið 2009. Hann er búinn að vera í 10 ár að móta söguna sér í vil,“ bætti Gunnar Smári við og sagði Ólaf Ólafsson hefði unnið baki brotnu við að gera slíkt hið sama. „Það er engin sátt á Íslandi um hvað gerðist, hvað kom fyrir okkur, hvers vegna og hvernig við raunverulega runnum út úr þessu.“

Gunnar Smári vitnaði á ný í Svein Harald sem segir í verki sínu að hér á landi hefðu yfirvöld ekki reynt að ná fjármunum til baka, en þess í stað handtekið útrásarvíkingana, réttað yfir þeim og stungið í steininn.  

„Það sem Svein Harald lagði til og fékk ekki undirtektir, var að öll áherslan yrði lögð á að ná þessum peningum. Hann vildi það en Íslendingarnir sögðu: „Nei, nei, nei. Við setjum þá í fangelsi.“ Og það er það sem við gerðum, öfugt við flestar þjóðir.“ Gunnar Smári sagði að flestar þjóðir færu í svipuðum málum á eftir þeim fjármunum sem höfðu glatast. Þá sagði Gunnar Smári einnig:

„Við leyfðum mönnunum að halda peningunum en þeir sátu inn í einhverja mánuði, sumir í tvö þrjú ár á Kvíabryggju en eru síðan sterkefnaðir. Við leyfðum þeim meira að segja að flytja peningana til baka með afslætti til Íslands.“

Sigurjón tók undir með bróður sínum: „Við vorum að vernda stöðu þessara manna. Við buðum þeim að koma með peningana á afslætti til baka. Á sama tíma og eignaverð hrundi gátu þeir keypt eignir á hrakvirði. Þetta var allt spilað upp í hendurnar á þeim.“

Bætti Sigurjón við að þessi aðferð hefði ekki verið ákveðin í Seðlabankanum, heldur hönnuð af þeim sem höfðu hag af því. Þá skaut Gunnar Smári inn í að þeim peningum sem var stungið undan hafi að lágmarki dugað fyrir hátæknisjúkrahúsi.

Hér má sjá þáttinn í heild sinni: