Egill: „hin mislukkaða endurkoma birgittu“

„Þeir njóta sjaldnast eldanna sem fyrstir kveikja þá. Ég veit ekki hvort þetta á alveg við um Birgittu Jónsdóttur og Pírataflokkinn. [...] Píratar urðu fljótt býsna stórir og öflugir. Það var ekki bara Birgittu að þakka – innan Pírata fóru að starfa sterkir stjórnmálamenn eins og Helgi Hrafn Gunnarsson og síðar Þórhildur Sunna Ævarsdóttir.“

Þannig hefst pistill eftir Egil Helgason á Eyjunni. Þar segir Egill að ef til vill henti það Birgittu betur að koma hlutunum af stað en að fylgja þeim eftir til langs tíma. Líkt og komið hefur fram í fréttum var Birgitta tilnefnd í trúnaðarráð Pírata fyrir stuttu, en var hafnað á félagsfundi Pírata um málið. Mikill hiti var á fundinum og yfirgaf Birgitta fundinn grátandi. Helgi Hrafn Gunnarsson þingmaður Pírata tók til máls á fundinum og sagði:

„Birgitta býr til ósætti frek­ar en sætti og er al­gjör­lega ófeim­in við það og stær­ir sig af því. Hún krefst þess að aðrir leiti álits hjá sér en leit­ar ekki álits annarra. Hún gref­ur und­an sam­herj­um sín­um ef hún sér af þeim ógn. Hún hót­ar þeim ef hún fær ekki það sem hún vill.“

Birgitta steig síðan í pontu á eftir Helga og sagðist upplifa fundinn sem mannorðsmorð. Birgitta hafði í apríl sagt að hún væri hætt í Pírötum en Hringbraut greindi frá því í byrjun mánaðarins að Birgitta væri gengin til liðs við Pírata á nýjan leik. Birgitta hefur ekki viljað tjá sig við fjölmiðla eftir fundinn en sagði á Facebook í gær:

„Ég ætla ekki að fara í opinber rifrildi við fyrrum samstarfsfólk. Lífið okkar á jörðinni er stutt. Það er mikilvægt að fólk missi aldrei trúnna á því að það geti haft jákvæð áhrif á samfélag sitt. Aldrei fyrr höfum við sem nú lifum staðið frammi fyrir eins flóknum og erfiðum vandamálum.

Ég er alls ekki sannfærð um að besta leiðin til að koma á raunverulegum samfélagslegum breytingum sé í gegnum núverandi valdakerfi.“

Sjaldgæft að endurkoma takist

Í pistli sínum bendir Egill Helgason á að Birgitta hafi ítrekað gagnrýnt Pírata og fundist þeir of stofnanalegir. Egill segir:

„Birgitta lýsti því yfir fyrir borgarstjórnarkosningarnar í fyrra að hún ætlaði að kjósa Sósíalistaflokkinn. Svo var vináttan orðin lítil milli hennar og forystusveitar Píratanna. Nú í vikunni reyndi hún að komast aftur inn í forystu Píratahreyfingarinnar. Henni var hafnaði í atkvæðagreiðslu á fundi sem var býsna skrautlegur. Fundarmenn voru þó altént að segja hug sinn.

En í rauninni er það sjaldgæft að endurkoma sterkra stjórnmálamanna eins og Birgittu takist. Þeir sem taka við keflinu eru yfirleitt ekki hrifnir af slíkum endurkomum.“