Egill helgason: „líklega er engin von“

Lífstykkjabúðin og snyrtivöruverslunin Sigurboginn munu loka og fara úr miðbænum. Egill Helgason fjallar um flóttann úr miðborginni á Eyjunni.

„Fólk sækir ekki í verslanir eins og okkar lengur,“ segir einn af eigendum Lífstykkjabúðarinnar. Um þetta segir Egill:

„Þetta er lóðið. Það er ekki hægt að kvarta undan skorti á bílastæðum við þessar búðir. Vandinn er að verslanir af þessu tagi berjast alls staðar í bökkum. Það er ekki séríslenskt fyrirbæri. Í Bretlandi er endalaust verið að tala um vanda verslunar við aðalgötur, því sem nefnist high street, það er stöðugur samdráttur ár eftir ár. Og í Bandaríkjunum loka verslanakringlur unnvörpum. Það má skoða vefsíður með dauðum verslanakringlum.“

Skýringuna segir Egill vera þá að verslaun á netinu hefur stóraukist. Föt er hægt að kaupa í ódýrum verslunum á borð við H&M, Lindex og Primark. En mesta breytingin að mati Egils eru breyttir verslunarhættir.

„Ungt fólk kaupir einfaldlega ekki jafn mikið dót og foreldrar þess, afar og ömmur. Heimurinn er næstum mettur af drasli. Yngri kynslóðin eyðir frekar peningum í upplifanir, ferðalög og veitingahús.“

Egill segir að þetta boði ekki gott fyrir hina hefðbundnu verslun í Reykjavík.

„Í Reykjavík hefur verið byggt upp gríðarlega mikið af verslunarrými undanfarin ár. Maður sér ekki betur en að mikið af því sé alveg óþarft. Það mun aldrei nýtast – nema þá ef leiguverð verður keyrt niður í nánast ekki neitt. En líklega er engin von á því.“