Ég vil vera elskaður og vinsæll

Benedikt Erlingsson leikari og leikstjóri er gestur Mannamáls:

Ég vil vera elskaður og vinsæll

Ég vil vera elskaður og dáður og njóta vinsælda. Ég vil síður vera listamaður sem fáir skilja og enn færri átta sig á hvað er að gera á sínu sviði. Ég vil þvert á móti búa til list sem vekur athygli og umtal. Ég er að þessu leyti popúlisti.

Í þessa veru talar Benedikt Erlingsson, einn mikilvirkasti leikari og leikstjóri landsmanna á þessari öld sem hefur heldur betur hitt í mark með kvikmyndirnar sínar Hross í oss og Kona fer í stríð á síðustu árum, ekki síst á erlendri grundu þar sem í bígerð er að endurgera sögur hans, í viðtali í sjónvarpsþættinum Mannamál á Hringbraut í kvöld.

Hann talar um deilur sínar við orkumálastjóra vegna stríðsins á hendur orkuvinnslu, en leikstjórinn hefur þar verið settur í hóp fólks sem hatar rafmagn. Sjálfur segist hann ekki hata það, heldur vilja herja á sóunarkapítalismann sem geri brátt út af við jarðarkringluna; við séum að prumpa framan í börnin okkar og barnabörnin með þeirri gegndarlausu og óþarfa eyðslu sem einkenni háttalag okkar á síðustu og verstu tímum.

Og hann fer mikinn í viðtalinu sem er ekki bara stórpólitískt heldur einnig einlægt og persónulegt eins og leikarans og leikstjórans úr Þingholtunum - en nú búandi í Mosfellsbænum innan um hross og gróður - er svo sannarlega von og vísa. 

Mannamál byrjar klukkan 20:00 í kvöld.

Nýjast