Hjónabandið hélt, þökk sé konunni

Listaskáldið Ólafur Haukur Símonarson var gestur Mannamáls í gærkvöld:

Hjónabandið hélt, þökk sé konunni

Ég var afskaplega lélegt efni í hippa, enda meyja að upplagi sem vill hafa allt í ordnung í kringum sig, en þess utan hafði ég bara engan áhuga á fíkniefnum og gat meira segja ekki byrjað að reykja venjulega vindlinga, hvað þá meir!

Svona lýsir rithöfundurinn, leikskáldið og tónlistarmaðurinn Ólafur Haukur Símonarson sínum yngri árum þegar hann flúði Íslands, ungur maður, og fann sig í Danmörku, þar sem hann byrjaði raunar að læra innanhússarkitektúr, en söðlaði svo um eftir fyrsta og nánast eina launaða starfið á ævinni, hjá sambandinu, vel að merkja - og gekk ritlistinni á hönd, svo og leikhúsinu í allri sinni mynd, milli þess sem hann baukaði lög á gítar.

Hann talar um tilurð verkanna sinna, hvernig Eniga Meninga, líklega frægasta barnaplata landsins, datt af himnum ofan og hvernig samstarf hans og Gunna Þórðar þróaðist, en þar vandaði hann sig hvað hann gat af virðingu fyrir tónskáldinu góða. Og hann ræðir Hafið, hvernig ein hans frægasta týpa á sviði varð til, Þórður kvótakóngur sem langflestir, hringinn í kringum landið, hafa mátað við sinn heimamann í plássinu.

Og hann tjáir sig af hispursleysi og einlægni um örlög dóttur sinnar, Elínar, sem frá fimm ára aldri glímdi við erfiðustu tegund flogaveiki sem lék hana grimmt - og breytti bæði henni og honum, en þó ekki hjónabandinu sem hélt, einkum vegna þess stólpa sem Gulla, konan hans hefur reynst í lífinu.

Mannamál er endursýnt í dag, en þátturinn er frumsýndur öll fimtmudagskvöld klukkan 20:30 - en þess utan er hægt að skoða hann á vef Hringbrautar undir flipanum sjónvarp þar sem alla þætti stöðvarinnar er að finna. 

Nýjast