Vill aukinn jöfnuð í heilbrigðiskerfið

Ég vona að mín verði minnst sem öflugs heilbrigðisráðherra sem kom á réttlæti og jöfnuði í ráðherratíð sinni, ekki síst hvað kostnaðarþátttöku sjúklinga varðar, en þar erum við komin í öngstræti að mínu viti.

Þetta segir Svandís Svavarsdóttir, nýr heilbrigðisráðherra landsmanna í einkar persónulegu samtali við Sigmund Erni í viðtalsþættinum Mannamál sem frumsýndur var á Hringbraut í gærkvöld, en hún kveðst vera töffari, sem sé bæði kostur hennar og veikileiki - og segist fyrir vikið hafa trú á því að hún komi miklu í verk en koðni ekki ofan í fenið sem gleypt hefur margan ráðherrann á fyrri tíð.

Hún er kominn af pólitíkusum í beinan karllegg, rifjar upp ritstjóraár pabba síns á Þjóðviljastóli og ráðherramennsku hans með hnífana í bakinu þegar stjórnmálin voru sterkt lituð af köldu stríði, en svo fjallar hún um skilnað foreldra sinna og eigin skilnað seinna meir, en í báðum tilvikum hafi verið stigin gæfuspor, þótt aðdragandinn hafi verið erfiður. Og svo er það móðurmissirin, þegar hún missti hluta af sjálfri sér, en svo nánar voru þær mæðgur, hún og Jónína, að þær hafi gert með sér samkomulag þegar nær dró kveðjustundinni að í hvert sinn sem Svandís myndi sjá maríuerlu í framtíðinni væri þar mamma hennar á ferð til að minna á sig og sína dynti, svo sem þann að kaupa alltaf lítra af snafsi á aðventunni og koma honum smám saman ofan í sig, tappa fyrir tappa - og það hafi hún alla tíð gert eftir að mamma dó, öðruvísi komi ekki jólin.

Og hún talar um pólitíkina, samstarfið við íhaldið sem hún lætur vel af, stöðu kvenna í stjórnmálum og hvernig hlutur þeirra við ákvörðunarborðin hafi jafnan verið lakari en karlanna sem jafnan hafi hampað sínum líkum á kostnað annarra sessunauta - og að lokum ræðir hún ástríðuna; táknmálið sem hún kolféll fyrir áður en hún byrjaði í stjórnmálum, en tungamál heyrnarlausra er ástríða hennar enn þann dag í dag.

Þátturinn Mannamál er frumsýndur klukkan 20:30 á fimmtudagskvöldum. Hann er endursýndur í dag, en jafnframt er hægt að nálgast hann á vefnum hringbraut.is undir flipanum sjónvarp.