Hef viðurkennt mistök og lært af þeim

Það eina sem ég get sagt um þessa skýrslu er að ég vona að þetta sé ekki bara enn eitt Reykjavíkurbréfið, nema að nú sé það á ensku,” segir Þorgerður Katrín Gunnarsdóttir, formaður Viðreisnar, um væntanlega skýrslu Hannesar Hólmsteins Gissurarsonar, um erlenda áhrifaþætti bankahrunsins.

Það vakti athygli þegar Hannes birti á bloggsíðu sinni í lok janúar greinina “Andmælti Davíð en trúði honum samt,” sem fjallar um viðbrögð Þorgerðar við viðvörunum Davíðs Oddssonar, sem þá var seðlabankastjóri um bankahrunið. Hannes sagði þar að Þorgerður og maður hennar hafi haft fjárhagslegan ávinning af viðvörunum seðlabankastjórans, þó að Þorgerður hafi sagst ekki trúa þeim á sínum tíma.

Skýrslan verður birt í fyrsta lagi í apríl, en bútar úr skýrslunni hafa ratað fyrir augu útvaldra.

Þorgerður segist ekki hafa fengið að lesa skýrsluna og eigi erfitt með að svara óljósum ásökunum. „Ég hef talað opinskátt um mín mál og eiginmanns míns. Ég hef viðurkennt mistök og lært af þeim. Ég vona það líka að þegar maður hefur stigið til hliðar frá pólítík að maður eigi endurkomu auðið. Það er búið er að velta við hverjum steini í máli mannsins míns í sjö eða átta ár. Hann var sýknaður af öllum kröfum,” útskýrir Þorgerður í forsíðuviðtali Fréttablaðsins í dag, og heldur áfram.

„Auðvitað eru ákveðnir einstaklingar og öfl í pólítíkinni sem munu gera allt til að endurnýta og -nota málin. Ég veit að þau munu gera allt til þess að gera líf mitt óbærilegt í pólítík, en þá erum við komin aftur þangað, að við verðum að þora. Ég er fyrir vikið miklu óhræddari, miklu frjálsari til að gagnrýna það sem verður að gera betur,“ segir hún. 

„Ég er á því að við eigum að skoða og læra af þessu öllu saman. Það voru svo margir hlutir sem voru ekki í lagi, bæði í stjórnmálum og í atvinnulífinu. Þess vegna reyni ég að berja mig áfram á hverjum einasta degi, rýna í fortíðina, læra af henni, svo ég geti orðið betri stjórnmálamaður og barist fyrir því sem ég trúi á. Ég vil raunverulegar umbætur svo við fáum fólkið okkar heim eftir nám í útlöndum, svo við getum tekið betur utan um fatlaða, búið til öflugt menntakerfi, og þar fram eftir götunum. Þannig að fólkinu okkar líði vel. Það er búið að fara í gegnum allt, allar spurningar, öllu var velt  við; hverja einustu kjaftasögu, hvert einasta plagg. Þess vegna tók þetta allan þennan tíma. Og þá spyr maður, hvenær má maður halda áfram með lífið? Hvenær er nóg, nóg?“

Þorgerður Katrín var í ítarlegu viðtali í helgarblaði Fréttablaðsin sem lesa má í heild sinni hér.