Ég er sjálfur uppskriftin að ólafi ragnari

Það er óhætt að segja að einn allra fyndnasti maður Íslands fari á kostum í Mannamáli kvöldsins, en þar situr leikarinn og uppistandarinn Pétur Jóhann Sigfússon fyrir svörum Sigmundar Ernis - og á raunar sá síðarnefndi í erfiðleikum með að bera upp spurningar sakir hláturkviða í þættinum.

Hann fer yfir tuttugu ára ferilinn, allt frá því hann var kjörinn fyndnasti maður Íslands á búllunni Astro í Austurstræti 1999 og til þessa dags þegar hann heldur upp á skemmtikraftsafmæli sitt í Eldborrgarsal Hörpu sem hefur verið samfelld sigurganga frá Svínasúpunni, 70 mínútum og Vaktaþáttunum þar sem ein ógleymanlegasta persóna sjónvarpssögunnar, Ólafur Ragnar Hannesson varð til í túlkun Péturs, en hann segist sjálfur vera uppskriftin að þeim misheppnaða töffara.

Hann er prestssonur að norðan - og útilokar ekki að gerast klerkur á miðjum aldri, hafi þar allt til, röddina, hreinlyndið - og nafnið, séra Pétur Jóhann Sigfússon hljómi nú bara ansi sannfærandi, en svo segir hann líka frá því að hann hefði allt eins getað ílengst í BYKO, átta árin þar hafi verið samfelldur einkahúmor hans sem samstarfsmennirnir hafi vart eða ekki þolað - og hann rifjar upp æskuárin hjá skilnaðarbarninu í Arnarnesinu í Garðabæ þar sem hann og Guðmundur Steingrímsson nutu þess hvað foreldrar Gumma voru oft að heiman, forsætisráðherrahjónin sjálf, en þá hafi sko verið sprellað í Mávanesinu úr hófi fram - og ekki var minna um grínið í ráðherraveislunum þegar þeir földu sig á bak við stórisana og njósnuðu um stjórnmálaelítuna á öðru glasi.

Mannamál hefst klukkan 20:00 í kvöld.