Betri árangur krefst betra fólks

Sagan á bak við WOW-ævintýrið var öll sögð í viðtalsþættinum Mannamál á fimmtudagskvöld í síðustu viku en þangað mætti forstjórinn Skúli Mogensen á annarri löppinni, en sú vinstri er með slitið krossband eftir skíðaslys ytra um jólin.

Í einkar fjörlegu og persónuleegu samtali sínu við Sigmund Erni, sem nú er hægt að sjá hér á vef stöðvarinnar, fer hann yfir litríkan viðskiptaferil sinn frá Oz til ævintýra háloftanna, svo og bernskuárin úti í Sviþjóð og skiptinámið í Kaliforníu á sautjánda ári þar sem honum voruð innprentuð gildi fyrirtækjareksturs af slíkri hugljómun heimamannsins að teningunum var eiginlega kastað.

Hann lýsir stjórnandataktík sinni af hispursleysi; ef menn komist upp úr deild þurfi jafnt að hrósa liðinu fyrir unna sigra en jafnframt að huga að nýjum leikmönnum til að standa sig í betri deild - og þetta kunni að þykja brútalt, en einmitt svona verði þetta að vera ef menn ætli að ná sífellt betri árangri. Og hann kveðst stefna langt og hátt, honum nægi ekki að vera bara Íslandsmeistari, hann vilji helst vera heimsmeistari í sínu fagi, æ fleiri fundir hans með kollegum úti í heimi hafi í raun og sann sannfært hann á seinni árum að fyrst útlendingar geti rekið framúrskarandi lággjaldaflugfélag þá geti Íslendingar gert það líka. Það sé ekkert fengið með því að hugsa smátt, Íslendingar geri allt of mikið af því - og hann sjálfur hafi alltaf viljað líta á allan heiminn sem starfsvettvang sinn.

Hann ræðir persónulega hagi sína, skilnaðinn við eiginkonuna fyrir fjórum árum og af hverju hann hafi ekki fest ráð sitt eftir það; hann hafi barasta ekki haft tíma til þess, enda á á eilífu flakki, flugvélin sé eiginlega heimili hans - og svo hitt, sem hann nefnir; hann sé bara ekki húsum hæfur eins og á hafi staðið síðustu ár.

Mannamál eru frumsýnd öll þriðjudagskvöld klukkan 20:30 og rísa gjarnan undir nafni.