Efri hluti strompsins felldur

Efri hluti strompsins felldur

Efri hluti skorsteinsins springur
Efri hluti skorsteinsins springur

Efri hluti skorsteins Sementsverksmiðjunnar á Akranesi var felldur rétt eftir klukkan tvö í dag. Upphafleg áætlun kvað á um að bæði efri og neðri hluti skorsteinsins yrðu felldir með örskömmu millibili en neðri hlutinn sprakk ekki. Því er áætlað að neðri hlutinn verði sprengdur síðar í dag.

Áætlun um að fella skorsteininn hefur ekki gengið snurðulaust fyrir sig þar sem upphaflega átti að sprengja hann um hádegi í gær. Vegna veðurs var aðgerðinni frestað til klukkan 12:15 í dag. Vegna veðurskilyrða um hádegisbil í dag var henni aftur frestað um tvær klukkustundir. Loks tóks að sprengja efri hlutann laust eftir klukkan tvö en neðri hlutinn átti að springa aðeins fjórum sekúndum síðar.

Það gerðist þó ekki og vinnur nú sprengjusérfræðingur að því að endurtengja sprengjuna með það fyrir augum að neðri hlutinn verði sprengdur síðar í dag. Samkvæmt heimildum Hringbrautar verður það í fyrsta lagi um klukkan 16:30 en líklegra er að það verði síðar. Hugsanlegt er að sprengingu neðri hlutans verði frestað fram yfir helgi.

Hringbraut sýndi beint frá sprengingu efri hlutans á Facebook síðu sinni og má sjá sprenginguna eiga sér stað hér: https://www.facebook.com/hringbraut/videos/793726404342547/?t=376

Nýjast