Efling og sgs samþykktu kjarasamninga með miklum meirihluta

Kjarasamningur Eflingar - stéttarfélags við Samtök atvinnulífsins, sem undirritaður var með fyrirvara um samþykki félagsmanna þann 3. apríl síðastliðinn, hefur verið samþykktur með miklum meirihluta félagsmanna í almennri atkvæðagreiðslu. Þá eru niðurstöður atkvæðagreiðslu um nýjan kjarasamning  19 félaga Starfsgreinasambands Íslands, þar á meðal Eflingar, og Samtaka atvinnulífsins á hinum almenna vinnumarkaði á þann veg að samningurinn var samþykktur með yfirgnæfandi meirihluta.

Frá þessu er greint í tilkynningum frá Eflingu og SGS. Atkvæðagreiðslan stóð yfir frá 12. - 23. apríl.

Atkvæði meðal félagsmanna Eflingar féllu þannig að 1.516 (77,07 prósent) samþykktu samninginn, 405 (20,59 prósent) höfnuðu honum og 46 (2,34 prósent) tóku ekki afstöðu.

Af þeim sem tóku afstöðu samþykktu 79 prósent samninginn, eða tæplega fjórir af hverjum fimm. Atkvæði greiddu 1.967 félagsmenn, eða 10,16 prósent af þeim 19.352 sem voru á kjörskrá. Atkvæði voru greidd bæði rafrænt og á pappír utan kjörfundar.

Í tilkynningu Eflingar segir að samkvæmt kjarasamningnum munu öll taxtalaun hækka í þrepum um 90 þúsund á samningstímanum, eða 30 prósent. Samningstími er 3 ár og 8 mánuðir. Allar launahækkanir samningsins eru krónutöluhækkanir sem beinast að mestu til láglaunahópa umfram hærri tekjuhópa. Til viðbótar við hefðbundnar launahækkanir býður samningurinn upp á frekari launahækkanir sem tengdar eru við aukningu hagvaxtar á mann.

Einnig kemur fram að aðkoma stjórnvalda að samningnum sé veruleg, þar sem fyrirhugaðar skattkerfisbreytingar eru ígildi 15.900 kr. hækkunar mánaðarlauna og breytingar á barnabótakerfinu ígildi um 15.000 kr. hækkunar. Einnig hafi stjórnvöld kynnt víðtækar aðgerðir í húsnæðismálum og fleiri málaflokkum í tengslum við samninginn.

Þá er ítrekað að í samningnum séu forsenduákvæði sem heimila uppsögn hans verði skilyrðum um lækkun vaxta, kaupmáttaraukningu og aðkomu stjórnvalda ekki mætt.

SGS sá um atkvæðagreiðslu fyrir 18 félög

Í tilkynningu SGS kemur fram að sambandið hafi haldið utan um sameiginlega rafræna atkvæðagreiðslu meðal 18 félaga um nýjan samning, þar á meðal Eflingar, en AFL Starfsgreinafélag sá sjálft um sína atkvæðagreiðslu og samþykkti sömuleiðis samninginn.

Í atkvæðagreiðslu félaga SGS í heild samþykktu 80,06 prósent samninginn, 17,33 prósent höfnuðu honum og 2,61 prósent tóku ekki afstöðu. Á kjörskrá voru 36.835 manns og kjörsókn var 12,78 prósent. 

Niðurstöðurnar voru afgerandi í öllum félögunum nema einu, en í 17 af 19 félögum var samningurinn samþykktur með yfir 70 prósent atkvæða.

Kjarasamningurinn á hinum almenna vinnumarkaði, sem var undirritaður 3. apríl síðastliðinn, telst því samþykktur hjá eftirfarandi félögum: AFLi Starfsgreinafélagi, Öldunni stéttarfélagi, Bárunni stéttarfélagi, Drífandi stéttarfélagi, Eflingu stéttarfélagi, Einingu-Iðju, Framsýn stéttarfélagi, Stéttarfélagi Vesturlands, Stéttarfélaginu Samstöðu, Verkalýðsfélagi Akraness, Verkalýðsfélagi Grindavíkur, Verkalýðs- og sjómannafélagi Bolungarvíkur, Verkalýðs- og sjómannafélagi Sandgerðis, Verkalýðsfélagi Snæfellinga, Verkalýðsfélagi Suðurlands, Verkalýðsfélagi Vestfirðinga, Verkalýðsfélagi Þórshafnar, Verkalýðs- og sjómannafélag Keflavíkur og nágrennis og Verkalýðsfélaginu Hlíf.