Ef þú greiðir ekki fyrir vöruna ertu varan

„Ef þú greiðir ekki fyrir vöruna þá ert þú varan.“ Þetta kemur fram í grein sem Alma Tryggvadóttir, persónuverndarfulltrúi Landsbankans og áður lögfræðingur hjá Persónuvernd, skrifaði á vef Landsbankans um notkun á ókeypis öppum. Í viðtali við Lindu Blöndal í frétta- og umræðuþættinum 21 á Hringbraut í gærkvöld hafði Alma eftirfarandi að segja um þetta: „Það er enginn ókeypis hádegismatur. Það er enginn að búa til risastóra samfélagsmiðla eða öpp eingöngu í þeim tilgangi að gleðja neytendur.“

Hún hélt áfram: „Það er alltaf eitthvað þarna á bakvið, það er viðskiptamódel, það er fyrirtæki sem þarf að reka og hvernig hagnast það og hvernig hagnast það á þínum upplýsingum? Það er með því að greina þig, selja þínar upplýsingar, senda þér auglýsingar og deila þessu með samtarfsaðilum sínum. Þannig virka viðskiptamódel þessara stóru tæknirisa, Google, Facebook, Amazon og fleiri,“ segir Alma. Þessar upplýsingar séu verðmætar því þær eru notaðar til að selja okkur eitthvað.

 „Öpp eru til að veita þér einhverja þjónustu og einfalda þér lífið, það er auðvitað tilgangurinn. Annar og ófyrirséðari tilgangur er að það hangir eitthvað á spýtunni. Það er enginn bara að gera okkur greiða til að einfalda okkur lífið, það er alltaf eitthvað látið í staðinn. Það ásælast allir upplýsingar, þeir reyna að fá þær og við þurfum að ákveða hvað við viljum afhenda,“ segir Alma einnig.

Þetta sé raunveruleikinn að sögn Ölmu. Hún nefnir sem dæmi vasaljósa app á Android símum, sem notendur þurfi að hala niður. Appið hefði kannski fyrir fram verið talið nokkuð saklaust vegna einfaldrar virkni en þó kemur á daginn að appið, sem hefur verið halað niður 10 milljón sinnum, biður um aðgang að símtölum, símtalaskrá, smáskilaboðum og myndavél.

Í þættinum ræddi Alma nýja og strangari persónuverndarlöggjöf sem tók gildi um mitt síðasta ár. Um hvað felist í henni segir hún: „Aukinn réttur einstaklinga, strangari ábyrgð fyrirtækja, meira gagnsæi og samræmi. Nú eiga þessi lög jafnt við um alla sem vinna persónuupplýsingar sama hvar þeir eru í heiminum.“

Viðtalið við Ölmu í heild sinni er að finna hér: