Dýrfinna helga er látin: frumkvöðull sem tók á móti fyrsta barninu sem fæddist í vatni á íslandi

Dýrfinna Helga Klingenberg Sigurjónsdóttir fæddist í Reykjavík 5. júlí 1931. Hún lést á Hjúkrunarheimilinu Seltjörn 29. maí 2019. Hún gekk í Ljósmæðraskóla Íslands, þaðan sem hún lauk ljós mæðraprófi árið 1952. Dýrfinna giftist Sigurði Ingvari Jónssyni, f. 23.1. 1927, d. 12.9. 2017, verkamanni frá Sæbóli í Aðalvík, þann 12. júní 1954. Greint er frá andláti Dýrfinnu í Morgunblaðinu.

Dýrfinna starfaði sem gangastúlka hjá nunnunum á Landakoti í fjögur sumur og gerðist síðan einkabílstjóri hjá Guðmundi blinda í Trésmiðjunni Víði uns hún hóf ljósmæðranám. Hún starfaði á fæðingardeild Landspítalans þar hún lét af störfum fyrir aldurs sakir árið 2001. Auk þessa vann hún við mæðraskoðun og sem afleysingaljósmóðir víðs vegar um landið í sumarfríum sínum. Dýrfinna var auk þessa ætíð starfandi ljósmóðir í Reykjavík og nágrenni þar sem hún tók á móti fjölda barna í heimahúsum.

Árið 2004 var hún kjörin heiðursfélagi í Ljósmæðrafélagi Íslands. Hún var sæmd Íslensku fálkaorðunni árið 2015 fyrir störf að heilbrigðismálum.

Í kveðju frá Ljósmæðrafélagi Íslands segir:

\"\"Níu ára gömul ákvað hún að verða ljósmóðir og hvikaði ekki frá þeirri ákvörðun, skjólstæðingum sínum til mikilla heilla. Í Dýrfinnu sló hið sanna ljósmæðrahjarta og hún trúði alltaf að allt væri í lagi og gengi vel þar til annað kom í ljós, án þess þó að taka neina áhættu. Hún virti alltaf óskir kvenna og gerði það sem í hennar valdi stóð til að koma til móts við allar konur sem leituðu til hennar og sagði sjálf að hún gæti aldrei neitað konu sem til hennar kom um hjálp.

 Hún starfaði um árabil við heimafæðingar og þurfti oft að fara frá sínu stóra heimili þegar kom að fæðingu. Á þeim árum sem Dýrfinna var við heimafæðingar þurftu konur sjálfar að borga fyrir þjónustu ljósmóður og ef þröngt var í búi rukkaði Dýrfinna ekki fyrir sína vinnu, hún var sannarlega mannvinur og ljósmóðir af hugsjón.

Hún var frumkvöðull og tók á móti fyrsta barninu sem vitað er um að fæðst hafi í vatni á Íslandi. Það var umdeild ákvörðun en Dýrfinna hlustaði á móðurina sem vildi fæða með þessum hætti, kynnti sér málið vel og samþykkti að konan yrði í vatni. Þegar Dýrfinna sagði frá þessu sagði hún gjarnan:

„Þetta gekk allt saman vel“.

Hún trúði á sitt innsæi og ákvað að treysta því og það reyndist henni vel alla tíð. Ljósmæður landsins báru virðingu fyrir Dýrfinnu og litu upp til hennar og hennar starfa á langri starfsævi.

Dýrfinna var gerð að heiðursfélaga Ljósmæðrafélags Íslands 2004 fyrir brautryðjendastarf í þágu kvenna. Hún var sæmd riddarakrossi hinnar íslensku fálkaorðu 2015 fyrir störf á vettvangi heilsugæslu og umönnunar.