Dropalýsi og grásleppuvertíð

Þorskalýsið Dropi er framleitt á litlum stað við höfnina í Bolungarvík. Þar standa þær í stafni, Anna Sigríður Jörundsdóttir og Sigrún Sigurðardóttir sem tvær af þremur frumkvöðlum fyrirtækisins. Linda Blöndal hitti þær á staðnum fyrir nokkru og fékk að heyra bráðskemmtilega sögu af því hvers vegna þær fór út í lýsisframleiðslu, hvað fékk þær í þorskalýsið.

Grásleppuverðtíðin hófst fyrir viku. Veiðimenn segja að það verð sem bjóðist nú sé með því lægra sem þekkst hefur. “Þetta er kaupendamarkaður”, segir Örn Pálsson framkvæmdastjóri Landssambands smábátaeigenda á Bryggjunni í kvöld og það þótt eftirspurn sé meiri en næg.

Vertíðin byrjaði með vel og mokveiði í fyrstu. Þrjár afurðir fást með þeim: Heil Grásleppa, grásleppuhrogn og söltuð hrogn.  

Og tengt þessu:

Fiskifréttir sögðu frá því fyrir helgi að ákvörðun stjórnar Reiknistofu fiskmarkaða um að loka á aðgang, sem sýnir hverjir séu kaupendur aflans af hverjum báti, sé harðlega mótmælt.

Smábátafélagið Klettur sendi þetta m.a. frá sér:

„Stjórn Smábátafélagsins Kletts mótmælir harðlega þeirri ákvörðun stjórnar RSF að hætta að birta hverjir eru kaupendur fisks á uppboðsmarkaði RSF. Komið er í veg fyrir það sem frjáls markaður stendur fyrir, opið og gegnsætt söluferli.  Það hlýtur að teljast algjört lágmark að seljandi fái upplýsingar um það hver kaupir af honum aflann.  Eðlilegt er að menn fari þá fram á það að nöfn seljenda séu ekki gefin upp á meðan nöfn kaupenda eru ekki gefin upp.“