Davíð talar með niðrandi hætti um konur í morgunblaðinu: lauslát, óþekktarrolla og horuð skepna

Í leiðara Morgunblaðsins í dag skrifar Davíð Oddsson ritstjóri Morgunblaðsins með niðrandi hætti um Þorgerði Katrínu Gunnarsdóttur. Davíð svarar grein Þorgerðar sem birtist í Fréttablaðinu í gær. Þar fjallaði Þorgerður Katrín um hörð innanflokksátök sem nú eiga sér stað innan Sjálfstæðisflokksins. Hefur Davíð gagnrýnt forystu síns gamla flokk harðlega í nokkrum Reykjavíkurbréfum og hafa bæði Þórdís Kolbrún Reykfjörð og Áslaug Arna Sigurbjörnsdóttir svarað Davíð. Ritstjóri Morgunblaðsins bregst við með því að tala niðrandi um konur.

Í grein sinni í gær sagði Þorgerður meðal annars:

„Ritstjórar Morgunblaðsins, Davíð Oddsson og Haraldur Johannessen, hafa farið fyrir þeirri fylkingu sem andvíg er innleiðingu þriðja orkupakkans. Þeir fullyrða að innleiðingin brjóti gegn stjórnarskrá og grafi undan fullveldi landsins. Stærri geta pólitísk ágreiningsefni varla orðið. Þá staðhæfa ritstjórarnir að þingmenn sem styðja málið eigi lítinn sem engan stuðning í röðum almennra flokksmanna og forystufólks í flokksfélögum.“

Í leiðara blaðsins svarar Davíð Þorgerði og segir hana hafa hlaðið lofi á fjóra nafngreinda Sjálfstæðismenn í grein sinni, þau Þórdísi Kolbrúnu Reykfjörð Gylfadóttur, Áslaugu Örnu Sigurbjörnsdóttur, Guðlaug Þór Þórðarson og Björn Bjarnason. Davíð telur enda að málflutningur þeirra fjögurra í tengslum við þriðja orkupakkann hafi verið í fullu samræmi við röksemdir Viðreisnar í málinu.

Davíð talar svo með lítillækkandi hætti um Þórdísi Kolbrúnu og Áslaugu Örnu og segir Þorgerði búast við því að þær gangi til liðs við Viðreisn: „Þorgerður kóngsdóttir í Klofningi á augljóslega erfitt með að kyngja þeirri staðreynd þótt hún viðurkenni hana, en bindur vonir sínar við að einhverjar skjátur kunni að rekast yfir ryðgaðan gaddavírinn til smáflokksins sem er á göngunni sem slíkra flokka bíður ætíð sé sæmilega tekið á móti.“

Ef orðinu skjáta er slegið inn í orðabókina Snöru er eftirfarandi þar að finna. Orðið skjáta er oftast notað í neikvæðri merkingu. Orðið skjáta getur þýtt:

Lítið (skorpið og lélegt) skinn. Lauslát kona. Ræfill. Óþekktarrolla, flenna eða þá einkum niðrandi um sauðfé og hross ef um horaðar skepnur er að ræða.