Davíð ósáttur og skammar bjarna: beiðnin sem á að hunsa

„Það hefur vakið undrun, svo ekki sé meira sagt, að forysta Sjálfstæðisflokksins gefur til kynna að hún muni hunsa beiðni flokksfólksins um endurskoðun á stórfelldri eftirgjöf fullveldis þjóðarinnar með gjörningnum sem kallaður er Orkupakki 3. Formaður flokksins sagði við þjóðina úr ræðustól Alþingis að orkupakkaaðgerðin væri óskiljanleg!“

Þetta segir Davíð Oddsson í leiðara Morgunblaðinu í dag. Hluti Sjálfstæðismanna vill að forysta flokksins taki Orkupakka 3 til endurskoðunar og að hann verði ekki samþykktur. Andað hefur köldu á milli Davíðs og Bjarna Benediktssonar. Davíð segir:

„Beiðni flokksfólksins, sem á að hunsa, er með hliðsjón af þröngri reglu sem núverandi forysta hafði frumkvæði að 2011. Ef þúsundir flokksbundinna óska eftir því að ákvörðun sem gengur gegn opinberum yfirlýsingum formannsins og ákvörðunum Landsfundar sé endurmetin er sjálfsagt að verða við því, hvað sem nýrri reglu líður. ESB blindingjar í Íhaldsflokknum breska fullyrtu að þjóðin sæi eftir ákvörðuninni í þjóðaratkvæði. Ekkert bendir til þess.“

Ítrekað hefur verið fjallað um að mikil átök eiga sér stað innan Sjálfstæðisflokksins og hefur flokkurinn verið í frjálsu falli. Davíð ætlar sér ekki að gera neina tilraun til að bera klæði á vopnin og ljóst að ekkert vopnahlé verður í Valhöll. Davíð vitnar í Jón Magnússon lögmann að lokum:

„Það er skaðlegt þegar fulltrúalýðræðið er komið á það stig, að meirihluti kjósenda telur að fulltrúar sínir taki ekki lengur tillit til skoðana sinna.“