Davíð: „er þessu fólki alvara?“

„Til eru fleygarsetningar um að stjórnmálaframi endi oftast með tragidíu. Í tilviki bréfritara var það gleðileikur frá upphafi til enda. Frá prófkjörinu 1974 og þar til horfið var úr stjórnmálum rúmum þrjátíu árum síðar þurfti ekki að kvarta yfir hvernig kjósendur krossuðu á kjörseðilinn.“

Þetta segir Davíð Oddsson ritstjóri Morgunblaðsins. Davíð hefur undanfarið tjáð sig afdráttarlaust um hin ýmsu mál í leiðurum og Reykjavíkurbréfum. Síðustu vikur hefur hann helst gagnrýnt sinn eigin flokk, Sjálfstæðisflokkinn. Hafa skrif hans valdið titringi, sérstaklega eftir að Davíð lýsti yfir að hann væri á móti innleiðingu orkupakka þrjú. Þá fjallar Davíð um málfrelsi ritstjóra. Davíð segir:

„Í september nk. verða 10 ár síðan við Haraldur Johannessen tókum við ritstjórn Morgunblaðsins. Sá tími hefur liðið hratt og hvern dag göngum við til starfs glaðbeittir og fullir af tilhlökkun. Fyrir hatt bréfritara er skrítið að heyra eða sjá raddir um að ritstjórar Morgunblaðsins ættu ekki að skipta sér af umræðu dægurmála og þar með því sem snýr að stjórnmálalegri umræðu. Er þessu fólki alvara?

Varla hefði Bjarni Benediktsson (eldri) haft mikinn skilning á slíku hjali, en hann hvarf úr ráðherrastól í ritstjórastól Morgunblaðsins og gegndi áfram þingmennsku og flutti sig svo úr ritstjórastól yfir í ráðherrastól þremur árum síðar, en sat áfram í stjórn Árvakurs, útgáfufélags Morgunblaðsins. Slík blanda ritstjórnar og stjórnmála myndi ekki tíðkuð í dag, en það voru aðrir tímar og Bjarna fór hún vel og samdóma álit að bæði, Bjarni og blað, hafi notið góðs af.“