„dalvíkingar“ sagðir skíta í vegköntum, rústa hótelherbergjum og setja upp kettlingsandlit til að kría út afslætti

Þeir eru sagðir gera hægðir sínar í vegköntum, koma illa fram við afgreiðslufólk og rústa hótelherbergjum. Þeir eru sakaður um að skilja baðherbergi eftir á floti og setja upp kettlingsandlit til að kría út afslætti og tala enga ensku. Þá eru þeir sagðir ekki kunna að aka bíl og þú finnur á lyktinni ef þeir hafa tekið bíl á leigu. Þeir eru kallaðir Dalvíkingar og það byrjaði í ferðaþjónustugeiranum. Við erum að tala hér um kínverska ferðamenn.

Þetta kemur fram í ansi viðamikilli og merkilegri umfjöllun í Speglinum á Rás 2 kemur fram að fyrir nokkrum árum hafi verið byrjað að kalla þá Dalvíkinga svo það væri hægt að skammast út í þá án þess að nefna endilega þjóðernið.

Þeir kunna ekki að keyra og þú finnur það sko á lyktinni ef það voru Kínverjar með bílinn á leigu. Það er algengt að heyra eða rekast á miður skemmtilegar fullyrðingar um kínverska ferðamenn. En fordómarnir eru ekki bara á Íslandi. Í Speglinum sagði:

„ ... það var sett skilti fyrir framan Louvre-safnið í París þar sem þeim skilaboðum var komið á framfæri að ekki mætti gera þarfir sínar þar, já og skilaboðin voru bara á kínversku. Er þetta orðspor verðskuldað eða byggir það á fordómum og flökkusögum? Er þetta til marks um einhvern núning milli ólíkra menningarheima? Spegillinn ræddi þetta við Arnar Stein Þorsteinsson, kínverskufræðing og sölustjóra hjá Nonna Travel.“ 

 „Kínverjar bara hegða sér öðruvísi og í sveitinni í Kína leyfirðu börnunum að hægja sér hvar sem er. Þegar ég bjó í Kína á árunum 2001 til 2006 var mjög algengt að börnin gengu um í nærbuxum með götum á, það var bara hægt að vippa þeim upp og þau gátu létt á sér á götunni. Það þótti í lagi en í dag tíðkast þetta ekki lengur í borginni þar sem ég bjó. Þetta er að breytast.

 ... út af þessum massatúrisma ertu að díla við fólk sem er ekki ferðavant og við erum svolítið bara að fá nasaþef af kínversku sveitinni, ef svo má segja.“

Þá var Arnar Steinn spurður hvort kínverskir ferðamenn rekist á veggi hér landi?

„Á Íslandi sé venjan að koma fram við fólk á jafningjagrundvelli og Kínverjar séu ekki vanir því. „Þetta er ekki illt innræti, þetta er bara það sem fólk er vant.“

Þá sagði Arnar Steinn einnig: „Ég held að þeir gangi ekkert endilega verr um en aðrir þó það fari af þeim slæmar sögur. Mögulega má líta á það þannig að það sé búið að greiða fyrir þessa þjónustu. Þegar ég fer á hótel erlendis er ég alltaf að taka til í herberginu áður en ég fer. Þeim myndi ekki detta það í hug. Þeir eru búnir að borga fyrir þessa þjónustu. Af hverju ætti ég að fara að tína rennblautt handklæði upp af gólfinu. Þetta er bara viðhorf. Svo er rétt að hafa í huga að gistiverð á Íslandi er ofboðslega hátt samanborið við Kína. Fyrir herberg á gistiheimili á Suðausturlandi gætirðu fengið fimm stjörnu herbergi á æðislegu hóteli í Peking, þeir skilja ekki þennan mun, hugsa ég var að greiða 200 evrur fyrir gistingu og þetta er ekkert spes.“

Þá sagði Arnar Steinn að hægt væri að leysa ýmis mál sem koma upp með einföldum hætti.

„Við höfum heyrt sögur um fólk að sjóða nærbuxur í hitavatnskötlum á herbergjum eða sjóða núðlur. Þá getur fólk sagt, nei ég vissi ekki að það mætti ekki. Þá setur hótelið bara miða á kínversku við teketilinn og segir þetta er ekki í boði.“ 

Hér má lesa umfjöllunina í heild sinni.