Dæmdir en sleppa við refsingu

Landsréttur hefur fundið Hreiðar Már Sigurðsson, fyrrverandi forstjóra Kaupþings, og Magnús Guðmundsson, fyrrverandi forstjóra Kaupþings í Lúxemborg, seka um fjárdrátt og hlutdeild í fjárdrætti vegna Marple málsins svokallaða. Hvorugur hlýtur þó refsingu vegna brotanna þar sem þeir hafa þegar náð sex ára refsihámarki auðgunarbrota vegna fyrri dóma tengdum hruninu. Vísir og Kjarninn eru meðal þeirra sem greina frá.

Hreiðar Már var sakfelldur fyrir fjárdrátt og Magnús var sakfelldur fyrir hlutdeild í fjárdrætti. Ákært var í þremur liðum en sýknað í tveimur þeirra. Sakfellt var í lið sem sneri að millifærslu á þremur milljörðum króna frá Kaupþingi hf. til Kaupþings LÚX en þaðan var sú upphæð millifærð á reikning félagsins Marple.

Lands­réttur telur í dómi sínum að þótt brot Hreið­ars varði háa fjár­hæð sé málið fjarri því eins yfir­grips­mikið og þau brot sem hann hafi þegar verið fund­inn sekur um og ­sætt refs­ingu fyr­ir­. Lands­réttur vísar í sömu rök varð­andi nið­ur­fell­ingu á refs­ingu Magn­ús­ar, en hann var fund­inn sekur um hlut­deild í brotum Hreið­ars Más. 

Í frétt Kjarnans um málið kemur fram að Magnús hafði áður hlotið fjögurra ára og sex mán­aða dóm og bætt­ist 18 mán­aða dómur hér­aðs­dóms þar ofan á. ­Með fyrri dómum hafði Hreiðar hlotið sex ára fang­elsi fyrir fjármálabrot, en það er refsi­há­mark slíkra brota. Til við­bótar var honum dæmdur hegn­ing­ar­auki í dómi hér­aðs­dóms í Marp­le mál­in­u.

Skaðabótakrafa Kaupþings á hendur Hreiðari Má og Magnúsi vegna brota þeirra var viðurkennd af Landsrétti. Þeir þurfa að greiða þriðjung málsvarnarlauna verjenda sinna í héraði og fyrir Landsrétti, en annar kostnaður fellur á ríkissjóð.

Fjárfestirinn Skúli Þorvaldsson, eigandi Marple, var sýknaður  af kröfum ákæruvaldsins, en hann hafði áður hlotið sex mánaða dóm í héraði. Guðný Arna Sveinsdóttir, fyrrverandi fjármálastjóri Kaupþings, var sýknuð af ákærum sínum um fjárdrátt og umboðssvik og með því staðfesti Landsréttur sýknudóm hennar.