Dæmd fyrir að segja söguna alla

Sálumessa, nýjasta ljóðabók rithöfundarins og skáldkonunnar Gerðar Kristnýjar leitaði hana uppi - og sagan lét hana ekki í friði fyrr en hún hafði komið henni vandlega fyrir á bók.

Hún segir alla söguna í Mannamáli kvöldsins, hádramatíska í meira lagi, frá konunni sem skrifaði grein um áhrif þess að elsti bróðirinn beitti hana kynferðislegu ofbeldi og nauðgaði henni frá sjö ára aldri fram yfir fermingu - og eyðilagði líf hennar til framtíðar. Gerður Kristný afréð að birta greinina, nafnlausa og myndlausa í tímaritinu Mannlífi sem hún ritstýrði beggja vegna aldamótanna síðustu, í fullu samráði við konuna, en það voru ekki nema nokkrir dagar liðnir frá birtingunni að konan tók líf sitt, gat ekki meir.

Og Gerður Kristný var kærð til siðanefndar Blaðamannafélags Íslands af yngsta bróður konunnar - og fékk þar dóm, að því er virtist vegna þess að hún var ekki tilbúin að biðjast afsökunar á að birta bréfið án samráðs við fjölskyldu konunnar. Gerður Kristný upplifði samskipti sín við siðanefndina á þann veg að hún kysi fremur þöggunina en umfjöllunina, þunglynd kona mætti ekki hafa rödd í fjölmiðlum hér á landi.

En það var líka stutt í verðlaunin, önnur kona sem var fórnarlamb kynferðisofbeldis á heimili sínu hafði stuttu seinna samband við Gerði Kristnýju og úr varð bókin um Thelmu sem vann hug og hjörtu landsmanna - og hreppti Blaðamannaverðlaunin.

Öll þessi saga - og meira til í Mannamáli kvöldsins, klukkan 20:00.