Chanel-veldið fjárfesti í 66°norður

Bandaríska fjárfestingafélagið sem fjárfesti í Sjóklæðagerðinni 66°Norður síðasta sumar er í eigu fjölskyldunnar sem á tískuhúsið Chanel. 66°Norður hefur nú ráðið framkvæmdastjóra alþjóðlegrar starfsemi fyrirtækisins en hann var áður framkvæmdastjóri fataverslunarrisans NET-A-PORTER. Hann segir íslenska fataframleiðandann búa yfir öllum þeim eiginleikum sem þarf til að verða heimsþekkt vörumerki.

Þetta kemur fram á vef Fréttablaðsins.

Markaðurinn greindi fyrst frá kaupunum í júlí á síðasta ári en þá fengu ekki staðfestar upplýsingar um nafn bandaríska félagsins. Kaupandinn er fjárfestingafélagið Mousse Partners, sem var stofnað af Charles Heilbronn, hálfbróður Wertheimer-bræðranna sem stýra Chanel, en auðæfi þeirra eru metin á um 42 milljarða Bandaríkjadala. Mousse Partners keypti tæplega helmingshlut í Sjóklæðagerðinni 66°Norður og fól samkomulagið í sér hlutafjáraukningu upp á 3,2 milljarða króna sem gengið var frá í lok síðasta árs. Þá verður Markaðurinn á Fréttablaðinu með ítarlega frétt um málið á morgun.

Nánar er fjallað um málið á vef Fréttablaðsins, sjá nánar hér.