Eigum við að rifja upp ESB og Icesave, Davíð?

Eigum við að rifja upp ESB og Icesave, Davíð?

Davíð Oddsson, forsetaframbjóðandi með meiru, reynir að koma höggi á Guðna Th. Jóhannesson með því að núa honum um nasir að hann hafi stutt Icesave og verið fylgjandi aðild Íslands að ESB. Það verður að flokkast undir dirfsku hjá Davíð að velja þessi tvö mál til að gagnrýna, jafnvel mætti kalla það fífldirfsku.

Fáir hafa rökstutt aðildarumsókn Íslands að ESB betur en einmitt Davíð sjálfur. Árið 1989 veitti Davíð Aldamótanefnd Sjálfstæðisflokksins forystu. Nefndin samdi svokallaða Aldamótaskýrslu sem var lögð fyrir landsfund flokksins þetta ár. Í henni skrifar Davíð m.a.:

„Hugsanlega verður þó skynsamlegast að óska beinlínis eftir viðræðum um inngöngu Íslands í Evrópubandalagið, þótt menn séu um leið reiðubúnir að láta inngöngu ráðast af því, hvort þau skilyrði, sem henni kunna að fylgja, þyki aðgengileg eða ekki. Verði sú niðurstaðan, að þau séu óaðgengileg talin, hafa menn heldur engar brýr brotið að baki sér. Og þrátt fyrir allt er líklegt að smæð okkar verði okkur styrkur ásamt með því að við erum að véla við bandalagsþjóðir okkar í Atlantshafsbandalaginu og margar hefðbundnar vinaþjóðir, þar sem við njótum trausts.

Það er því óheppilegt að borið hefur á því, að við séum sjálfir að búa okkur til skilyrði og mála skrattann á vegginn og þar með að veikja okkar eigin samningsstöðu er við mætum með sjálfskapaða annmarka til viðræðna við Evrópubandalagið.

Við megum síst af öllu ganga að þessu viðfangsefni með þrá um forna innilokun og einangrun, alteknir af ótta og kjarkleysi. Við verðum að sýna reisn og styrk og forðast einangrunarþörf og minnimáttarkennd. Til slíkra viðræðna hljótum við að ganga sannfærðir um það að reyna að ná fram hinu besta, en jafnframt tilbúnir til þess að hverfa frá þeirri leiðinni, ef niðurstaðan er ekki þolanleg.“

Þegar þessi orð eru borin saman við nýlega andstöðu Davíðs við aðild Íslands að ESB er ekki úr vegi að spyrja hverju hans eigin U-beygja í málinu sætir.

Davíð Oddsson og stuðningsmenn hans hafa einnig ráðist harkalega á Guðna Th. og sakað hann um að hafa stutt Icesave samning Svavars Gestssonar. Guðni hefur réttilega bent á að einungis 64 einstaklingar hér á landi fengu að ráða einhverju um samþykkt þess samnings. Sjálfur kaus Guðni gegn Icesave 2 eins og nær allir kjósendur og greiddi atkvæði með Icesave 3 (Buchheit samningurinn) eins og 40 prósent þjóðarinnar og forysta Sjálfstæðisflokksins. Óhætt er að fullyrða að efnahagsleg niðurstaða af samþykkt Buchheit samningsins hefði orðið áþekk þeirri niðurstöðu sem fékkst með því að bíða niðurstöðu dómstóla.

Guðni Th. Jóhannesson verður hins vegar ekki sakaður um að vera, eða hafa nokkurn tíma verið, sérstakur ábyrgðarmaður Icesave. Davíð Oddsson er sá maður, utan Landsbankans, sem mesta ábyrgð ber á Icesave og þeim hörmungum sem þeir innlánsreikningar kölluðu yfir okkur Íslendinga. Í mars 2009 var gert opinbert minnisblað úr Seðlabankanum, dagsett 12. febrúar 2008. Davíð Oddsson hafði lesið uppkast að minnisblaðinu á fundi með ráðherrum í ríkisstjórninni 8. febrúar 2008.

Þetta minnisblað var skrifað eftir fundi Davíðs með bönkum og matsfyrirtækjum í London í fyrstu viku febrúar. Það er kannski lýsandi fyrir þá lausung sem virðist hafa ríkt bæði í Seðlabankanum og stjórnarráðinu að ekki skyldi skrifuð skýrsla um þessa Lundúnaför seðlabankastjóra því hún var vissulega viðburðarík. Málnotkun bendir til að Davíð hafi sjálfur haldið á penna. Í bók minni, Sofandi að feigðarósi, sem kom út í apríl 2009, fjalla ég um þetta minnisblað og efni þess. Þar segir m.a.:

„Furðulegast er þó efni þessa minnisblaðs og þær ályktanir sem þar eru dregnar. Fram eru settar gríðarlega alvarlegar aðfinnslur um störf stjórnenda Glitnis og Kaupþings og vitnað til þess að erlendir viðmælendur Seðlabankans hafi gert athugasemdir við reynsluleysi þeirra og heilindi. Seðlabankinn virðist hafa samþykkt þessar athugasemdir þegjandi. Öðru víkur við þegar röðin kemur að Landsbankanum. Sérstaklega er tekið fram að erlendir bankamenn telji Landsbankamenn trúverðuga og góða í að svara spurningum og gefa skýringar. Minnisblaðið gerir lítið úr því að Moody’s lýsir miklum áhyggjum sínum vegna Icesave-reikninga Landsbankans, þ.e. að innstæður á slíkum reikningum geti verið kvikar og háðar trausti og trúnaði á markaði, bæði á Landsbankanum og Íslandi. Seðlabankinn tekur sérstaklega fram að hann hafi reynt að sýna Moody’s fram á að áhyggjur þeirra af Icesave væru óþarfar en tekið er fram að ekki sé víst að tekist hafi að eyða öllum efasemdum matsfyrirtækisins. Þarna verður ekki annað séð en að Seðlabanki Íslands hafi tekið upp hanskann fyrir einn íslenskan banka en ekki hina tvo.“

Í minnisblaðinu skrifar Davíð að það hafi verið mat manna í London að helsta hættan sem steðjaði að Landsbankanum væri að hann gæti sogast niður með hinum bönkunum ef þeir lentu í vandræðum. Mjög hæpið er að rétt sé eftir bankamönnunum haft þarna. Þegar til kom varð Landsbankinn fyrsti bankinn sem sett var skilanefnd yfir þegar hann lenti í nákvæmlega þeim ógöngum með Icesave reikningana, sem Moody’s hafði lýst áhyggjum yfir. Það hafði stuðningsmaður Icesave númer eitt á Íslandi ekki viljað hlusta á.

Þess má svo geta að Davíð Oddsson, þáverandi seðlabankastjóri, lagði blessun sína yfir ramma að Icesave samkomulagi í desember 2008, sem var íslenskum skattgreiðendum miklum mun óhagstæðara en Icesave samningur Svavars Gestssonar hálfu ári síðar.

Á meðan Davíð Oddsson var í valdastöðu brást honum ítrekað dómgreindin gagnvart Icesave og Landsbankanum. Hann gerðist sérstakur ábekingur, fyrir hönd íslenskra skattgreiðenda, að Icesave gagnvart Moody’s og vildi svo setja drápsklyfjar á þá sömu skattgreiðendur þegar allt var til fjandans farið. Eftir að hann varð embættis- og ábyrgðarlaus hefur hann hins vegar barið sér á brjóst og skammast út í alla aðra vegna málsins, sem með réttu mætti kenna við hann sjálfan. En orð Davíðs eru marklaus. Það eru verkin hans sem bera merkin.

Nýjast