„Það segir sig sjálft að einhver þarf að stíga til hliðar“

„Það segir sig sjálft að einhver þarf að stíga til hliðar“

„Það segir sig sjálft að einhver þarf að stíga til hliðar, annað hvort hann eða allir lögreglustjórar og lögreglumenn á Íslandi. Mér finnst þetta reiknidæmi frekar einfalt ef ég á að segja eins og er,“ segir Helga Vala Helgadóttir, þingmaður Samfylkingarinnar.

Líkt og áður hefur komið fram í fréttum hafa 8 af 9 lögreglustjórum landsins lýst yfir vantrausti á ríkislögreglustjóra.

Áslaug Arna Sigurbjörnsdóttir, dómsmálaráðherra hefur ekki viljað tjá sig um það hvort Haraldur Johannessen, ríkislögreglustjóri njóti trausts en sagði hún eftir fund sinn með stjórnskipunar- og eftirlitsnefnd í morgun að verið væri að skoða öll málin í heild sinni í ráðuneytinu.

„Það er verið að vinna góða vinnu og mikið af góðu fólki sem er að sinna því,“ sagði Áslaug í morgun. Í kvöldfréttum RÚV í gærkvöldi sagði Áslaug að embættismenn nytu ríkrar réttarverndar: „ Þegar starfsmenn bregðast skyldum er hægt að setja ákveðna atburðarás á stað og sú vinna er í gangi,“ greindi Áslaug frá. Eftir fundinn í morgun dró Áslaug þó aðeins úr orðum sínum og sagðist hafa verið að vísa til alls málsins og mál lögreglunnar í heild sinni.

Síðan Haraldur kom fram í viðtali í Morgunblaðinu virðist þverpólitísk samstaða ríkja um að Harald verði að víkja úr starfi.

Páll Magnússon formaður allsherjarnefndar sagði í Morgunútvarpi Rásar 2 að óboðlegt væri að ríkislögreglustjóri skuli gefa það til kynna í viðtali að hann lumi á vitneskju um spillingu innan lögreglunnar án þess að ætla að opinbera hana. Þá telur hann Harald ekki geta setið áfram í starfi sínu.

Nýjast