Ruglandi á Alþingi

Þorsteinn Pálsson skrifar:

Ruglandi á Alþingi

Betur hefði farið á því að Þórhildur Sunna Ævarsdóttir formaður þingflokks Pírata hefði virt ráðgefandi áliti siðanefndar Alþingis, sem forsætisnefnd þingsins á þó eftir að taka afstöðu til. Eitt er að vera ósammála röksemdafærslu en annað að virða ekki niðurstöðu fagnefndar um þessi efni. Virði þingmenn ekki slíkar niðurstöður virkar kerfið einfaldlega ekki.

En það er fleira sem veldur því að verulegir misbrestir virðast vera í öllu ferli siðferðilegra álitamála á Alþingi. Píratar og aðrir þingmenn geta til að mynda með gildum rökum bent á verulegar brotalamir í aðkomu forsætisnefndar.

Efnislega eru siðareglurnar sjálfar ágætlega greinargóðar. Þær gefa ekki tilefni til sérstakrar gagnrýni. Formlega eru þær settar með ályktun Alþingis. Forsætisnefnd setur aftur á móti reglur um málsmeðferð með stoð í þingsályktuninni.  Það sem fyrst og fremst hefur leitt til þess klúðurs sem við blasir eru flóknar og óskýrar málsmeðferðarreglur og ógóð framkvæmd þeirra.

Forsætisnefnd ákærir, dæmir og veitir uppgjöf sakar

Samkvæmt reglunum er forsætisnefnd Alþingis hin raunverulega siðanefnd, eins konar aðalsiðanefnd. Hún ákveður hvort tilefni er til að taka mál til meðferðar. Hún leitar álits ráðgefandi siðanefndar telji hún efni standa til þess. Að því fengnu tekur forsætisnefndin ákvörðun um hvort um siðferðisbrot er að ræða óbundin af áliti ráðgjafanefndarinnar.

Í ákveðnum tilvikum getur forsætisnefndin síðan veitt þingmanni lausn frá áfellisdómi sé brot talið vera minni háttar.

Kjarni málsins er sá að forsætisnefndin fer með ákæruvald um siðferðileg álitamál. Hún fer svo sjálf  með æðsta dómsvaldið að fengnu ráðgefandi áliti siðanefndar. Og loks veitir hún sakaruppgjöf þegar það á við. Þetta eru ekki góðar málsmeðferðarreglur.

Almennt vanhæfi forsætisnefndar

Aukheldur er forsætisnefndin ekki góð siðanefnd; burtséð frá því hverjir sitja í henni á hverjum tíma. Samkvæmt lögum um þingsköp fer forseti Alþingis með alræðisvald í nefndinni ef ekki er samstaða. Þingsályktun um siðareglur breytir ekki þessu skýra ákvæði í lögum.

Þar að auki er forsætisnefndin í eðli sínu pólitísk nefnd og augljóslega vanhæf í flestum tilvikum þar sem spurningar um siðferði einstakra þingmanna vakna. Þingmenn geta ekki verið pólitískir andstæðingar eina stundina en óháðir og óvilhallir dómarar um siðferðileg mál hvers annars þá næstu. Vel mætti flokka það undir ruglandi með tilvísun í meistara Þórberg.

Sérstakt vanhæfi forsætisnefndar

Mál Þórhildar Sunnu Ævarsdóttur er ágætt dæmi um vanhæfi forsætisnefndar í einstökum málum. Það á rætur að rekja til umræðna um aksturspeninga margra þingmanna í mörg ár. Forsætisnefnd Alþingis komst áður að þeirri niðurstöðu, án þess að afla ráðgefandi álits siðanefndar, að sá þingmaður sem mest hafði fengið greitt hefði ekki  brotið siðareglur og að hann hefði ekki gerst brotlegur við lög.

Hér er ekki tekin afstaða til þeirrar niðurstöðu. Klípan er bara sú að forseti Alþingis er vanhæfur í þessu tilviki.

Forseti Alþingis ber lögum samkvæmt ábyrgð á rekstri Alþings og stjórnsýslu þess. Þegar forseti Alþingis tók þessa ákvörðun var nauðsynlegt að hafa í huga að gagnstæð niðurstaða hefði réttilega vakið þá spurningu hvort hann og forverar hans hafi sinnt lögbundnu ábyrgðar- og eftirlitshlutverki sínu með fullnægjandi hætti. Niðurstaðan getur verið rétt en hún er marklaus af því að hún er tekin af vanhæfum aðila.

Niðurstaðan í akstursmálinu sýnist vera tengd við málið gegn Þórhildi Sunnu Ævarsdóttur. Fyrir þá sök hefði spurningin um hæfi forsætisnefndar átt að koma upp áður en haldið var af stað með það. Vanhæfisspurningin hlýtur því óhjákvæmilega að koma upp nú þegar ráðgefandi álit siðanefndar liggur fyrir og málið er aftur komið á borð forsætisnefndar.

Ekki er þó sjálfgefið að vanhæfi forsætisnefndar kippi fótunum undan efnislegri niðurstöðu ráðgefandi siðanefndar.

Forseti Alþingis dæmir áður en mál fer í réttan farveg

Meðferð Steingríms J. Sigfússonar forseta Alþingis á Klausturbarsmálinu braut málsmeðferðarkerfið reyndar niður áður en fyrst reyndi á það. Hann hélt ræðu af forsetastóli um þau ummæli sem féllu á Klausturbar og réttilega höfðu valdið dýpri hneykslan meðal þjóðarinnar en nokkur önnur ummæli í manna minnum.

Það sem þingforsetinn sagði um Klausturbarsmenn er ekki tilefni athugasemda  heldur virðingarleysið fyrir settum málsmeðferðarreglum um siðferðisbrot þingmanna. Forseti Alþingis kvað sem sagt upp dóma  áður en málið var sett í formlega meðferð samkvæmt settum reglum, sem hann sjálfur ber ábyrgð á að framkvæma réttilega. Þingforsetinn gerði sig ekki aðeins vanhæfan heldur lamaði hann kerfið í raun með þessu frumhlaupi.

Vel má skilja að Steingrímur J. Sigfússon hafi talið sig knúinn til að segja skoðun sína umbúðalaust og án tafar á þessu alvarlega máli. En þá hefði formlega farið betur á að gera það úr ræðustóli Alþingis en ekki forsetastóli; sem almennur þingmaður og fela öðrum stjórn þingsins á meðan.

Það hefði verið persónuleg skoðun en ekki  dómur þingforseta og um leið Alþingis áður en málið fór rétta leið. Hann hefði orðið vanhæfur eftir sem áður. Það var í góðu lagi.  Hitt er ámælisvert að þingforseti skyldi ekki virða málsmeðferðarreglurnar.

Þetta atvik sýnir vel hversu óskynsamleg skipan mála það er að hafa forsætisnefndina sem aðalsiðanefnd.

Siðanefndir leysa flokkana ekki undan ábyrgð

Annað atriði í sambandi við siðferðileg álitaefni þingmanna og ráðherra er hlutverk forystu flokkanna í einstökum tilvikum. Það þarf líka að gera kröfu til þess að flokkar þeirra þingmanna og ráðherra sem hlut eiga að máli hverju sinni skýri viðhorf sín og sýni kjósendum hvar þeir draga línuna í sandinn.

Fari mál í meðferð siðanefndar getur verið eðlilegt að viðkomandi flokkar bíði, sérstaklega ef vafi þykir vera mikill. En í öðrum tilvikum geta mál verið svo augljós að þeir telji farsælast að taka strax  af skarið. Siðanefndir leysa með öðrum orðum ekki stjórnmálaflokkana frá ábyrgð í þessum efnum. Hún verður að vera lifandi og virk.

Álit pólitískra andstæðinga og þar á meðal  í forsætisnefnd getur verið réttmætt en er léttvægt í þeim skilningi að þeir deila ekki ábyrgð með þeim sem í hlut á. Á hinn bóginn er þungi á bak við það hvar pólitískir samherjar draga línuna í sandinn því að þeir deila ábyrgðinni og hafa vald til að ljúka því ástandi.

Þegar á allt er litið er því miður erfitt að komast að annarri niðurstöðu en að málsmeðferðarreglurnar, framkvæmd þeirra og viðbrögð við áliti ráðgjafanefndarinnar sýni þverbresti í kerfi sem átti að styrkja en ekki veikja Alþingi.  Eigi þetta málsmeðferðarkerfi að byggja upp traust þarf að hugsa það að einhverju leyti upp nýtt þó að siðareglurnar sjálfar geti staðið.

Nýjast